Nokkrir af stærstu bönkum heims eru viðriðnir einu stærsta fjár- og skattsvikamáli sögunnar. Svikin hafa kostað ríkissjóði í minnst ellefu Evrópulöndum, þar á meðal almenning, þúsund milljarða króna. Nýttar voru ýmsar gloppur í skattalögum og lögum um afgreiðslu til að svíkja milljarða undan skatti.
Átján evrópskir fjölmiðlar, anmarks Radio (DR), Politiken, Le Monde, Reuters, Die Zeit og þýska ríkissjónvarpið ARDH hafa undir verkstjórn þýsku rannsóknarfréttastofunnar Correctiv rannsakað gífurlegt gagnamagn um málið síðustu mánuði. Frá þessu er greint á Rúv í dag.
Á ríflega 180.000 blaðsíðum sem fjölmiðlarnir hafa undir höndum koma nöfn og merki banka á borð við Morgan Stanley, BNP Paribas, Deutsche Bank, J.P.Morgan, Credit Suisse, Commerzbank, Barclays og Bank of America fyrir, aftur og aftur, segir í frétt DR. Í gögnum kemur fram hvernig nýttar hafa verið með glæpsamlegum hætti ýmsar gloppur og smugur í skattalögum og lögum um hlutabréfaviðskipti og uppgjör og afgreiðslur hlutafélaga.
Með beinni aðkomu banka og háttsettra yfirmanna náðu fjárglæframennirnir að svíkja nær 7500 milljarða króna undan skatti í Danmörku, Þýskalandi, Belgíu, Frakklandi og Ítalíu. Meira en helmingur þessarar upphæðar, um 4.300 milljarðar króna, voru sviknir af almenningi í Þýskalandi en tæplega 2.300 milljarðar af frönsku þjóðinni. Í fréttum DR og Der Spiegel er tekið er fram að mögulegt og jafnvel líklegt sé að þessar tölur séu í raun enn hærri.
Lykilatriði í stórum hluta þessara brota eru reglur um endurgreiðslur skatta vegna hlutabréfakaupa. Í grófustu brotunum, segir í frétt DR, tókst svindlurunum að fá sama skattinn endurgreiddan allt að tíu sinnum. Í vægustu brotunum komu þeir sér einfaldlega undan því að borga þann skatt sem þeir hefðu með réttu átt að greiða. Sem fyrr segir nýttu svikahrapparnir sér ýmsar smugur í skattalögum í hverju landi, en einnig tókst þeim að færa sér í nyt þann mun sem finna má á löggjöfinni landa á milli.
Samkvæmt gögnunum hefur þessi brotastarfsemi verið stunduð frá árinu 2001 hið minnsta og fram til 2016. Lögregla, saksóknaraembætti og skattyfirvöld í Þýskalandi hafa þegar hafið formlega sakamálarannsókn á nokkrum málum sem rannsókn fjölmiðlanna hefur afhjúpað og meðal annars er fjallað um í þýska fréttaskýringaþættinum Panorama. Viðbúið er að yfirvöld í hinum löndunum fylgi fordæmi þeirra innan skamms.