Ásmundur Einar Daðason félags- og jafnréttismálaráðherra hefur ákveðið að skipa aðgerðahóp um verkefnið Karlar og jafnrétti í samræmi við framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum fyrir árin 2016 til 2019.
Þetta kemur fram í svari Ásmundar Einars við fyrirspurn frá Andrési Inga Jónssyni um karla og jafnrétti.
Andrés Ingi spurði hvernig brugðist hefði verið við þeim fimmtán tillögum sem fram komu í skýrslunni Karlar og jafnrétti: Skýrsla og tillögur um aukinn hlut karla í jafnréttismálum, sem velferðarráðherra var afhent í apríl árið 2013.
Í svarinu kemur fram að meginhlutverk aðgerðahópsins sé annars vegar að beita sér fyrir aðgerðum stjórnvalda um að auka þátttöku drengja og karla í öllu starfi og stefnumótun á sviði jafnréttismála og hins vegar að vinna tillögur um hvernig stefnumótun á sviði jafnréttismála geti betur tekið mið af samfélagslegri stöðu karla.
Aðgerðahópnum verði falið að taka mið af þeim tillögum sem fram komu í fyrrverndri skýrslu. Undirbúningur fyrir skipun aðgerðahópsins er í ferli og hefur hópurinn störf á næstunni, segir í svarinu.
Verkefnið hefur tafist
Gert er ráð fyrir að aðgerðahópurinn verði skipaður fulltrúum frá heilbrigðissviði Háskólans á Akureyri, Félagi leikskólakennara, mennta- og menningarmálaráðuneytinu og velferðarráðuneytinu. Sérfræðingur Jafnréttisstofu mun starfa með aðgerðahópnum. Jafnréttisstofa hefur unnið verkefnislýsingu fyrir aðgerðahópinn.
„Á undirbúningstíma verkefnisins hafa orðið miklar breytingar í kjölfar #MeToo-byltingarinnar. Jafnframt hefur verkefnið tafist. Því var talið nauðsynlegt að fækka verkefnum aðgerðahópsins og sníða að umræðu í samfélaginu um kynferðislega og kynbundna áreitni,“ segir í svarinu.
Gera tillögur um viðbrögð stjórnvalda við #metoo
Viðfangsefnum aðgerðahópsins er skipt í fjóra meginþætti. Í fyrsta lagi að vinna að heildstæðri aðgerðaáætlun stjórnvalda, meðal annars á grundvelli tillagna nefndar um karla og jafnrétti frá árinu 2013. Áætlunin fjalli sérstaklega um hvernig stefnumótun stjórnvalda á sviði jafnréttismála geti betur tekið mið af samfélagslegri stöðu karla og drengja og fjalli um aðgerðir er snúa að þátttöku karla og drengja á sviði jafnréttismála, fæðingarorlofstöku feðra, bættum möguleikum karla á samhæfingu fjölskyldu- og atvinnulífs sem og aðgerðum um uppbrot kynbundins náms- og starfsvals með tilliti til brottfalls karla úr námi á efri skólastigum.
Í öðru lagi að gera tillögur um mælingar á viðhorfum drengja og karla til helstu viðfangsefna jafnréttismála með hliðsjón af erlendum viðhorfskönnunum. Könnunin kanni sérstaklega viðhorf og notkun karla á heilbrigðisþjónustu og sömuleiðis hvort ákveðnir hópar karla fari á mis við þjónustuúrræði í heilbrigðismálum.
Í þriðja lagi að gera tillögur um viðbrögð stjórnvalda við #MeToo-byltingunni og í fjórða lagi að gera tillögur um aðgerðir til að efla sálfræði- og geðheilbrigðisþjónustu við þolendur og gerendur kynferðisofbeldis.
Ráðherra býst við að aðgerðahópurinn ljúki störfum og skili skýrslu með tillögum haustið 2019 til félags- og jafnréttismálaráðherra og ráðherranefndar um jafnréttismál þar sem meðal annars skuli gera grein fyrir stöðu þekkingar um karla og jafnrétti og setja fram tillögur að rannsóknum og aðgerðum. Horfa skuli til fyrirmynda og stefnumótunar um karla og jafnrétti á Norðurlöndum.