Samkvæmt frumvarpi Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra, sem birt hefur verið inn á samráðsgátt stjórnvalda, verða dómar og úrskurðir héraðsdómstóla sem varða viðkvæm persónuleg málefni ekki lengur birtir opinberlega.
Þetta eru meðal annars má sem varða kynferðisbrot, ofbeldi í nánum samböndum, nálgunarbann, erfðir og lögræði.
Þá gerir frumvarpið einnig ráð fyrir nafnleynd í öllum öðrum málum við birtingu dóma í sakamálum um þá sem þar koma við sögu.
Samkvæmt frumvarpinu á það við um vitni, brotaþola og aðra sem koma við sögu.
Í greinargerð með frumvarpinu er þetta meðal annars rökstutt með því, að tryggja þurfi persónuvernd betur. „Með þessu móti verður betur tryggð persónuvernd í viðkvæmustu málunum en hún verður ekki fyllilega tryggð með því að birta dóma undir nafnleynd, þar sem viðbúið er að greina megi aðila af öðrum atriðum sem fjallað er um eins og áður er getið. Með því að semja slíkan útdrátt er einnig komið í veg fyrir að greina megi persónur í dómi vegna mistaka við nafnhreinsun eða úrfellingar en nokkur brögð hafa verið að því við birtingu dóma og hafa sum þeirra verið mjög bagaleg [...] Með því að safna slíkum upplýsingum saman kerfisbundið í áratugi og veita aðgang að þeim með leitarvélum er hætt við að ekki sé fyllilega gætt að sjónarmiðum um persónuvernd og friðhelgi einkalífs, en þau réttindi eru varin af 71. gr. stjórnarskrárinnar og 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.“ segir í greinargerðinni.
Eins og málum er háttað nú, eru dómar birtir á vef dómstólanna og Hæstaréttar. Verði frumvarpið að lögum mun það breyta stöðu mála mikið, í átt til þess að upplýsingar verða síður gerðar opinberar úr dómsmálum.