Áhætta í fjármálakerfinu hefur aukist en er enn hófleg. Töluvert hefur hægt á vexti ferðaþjónustunnar og hefur áhætta sem tengist henni aukist frá því í vor. Mikil hækkun olíuverðs og hörð samkeppni hefur reynt á þanþol flugfélaga hér á landi eins og annars staðar og hefur birst í rekstrarerfileikum þeirra.
Þetta kemur fram í formála aðstoðarseðlabankastjóra, Rannveigar Sigurðardóttur, í ritinu Fjármálastöðugleiki sem Seðlabankinn gaf út í dag.
Rannveig segir að þessi þróun hafi líklega átt þátt í nokkurri veikingu krónunnar á haustmánuðum vegna endurmats á efnahagsástandi og horfum. Lægra raungengi gæti á móti stutt við ferðaþjónustuna. Hægt hafi á útlánavexti stóru viðskiptabankanna til fyrirtækja í ferðaþjónustu samhliða hægari vexti í greininni.
„Vöxturinn hefur þó verið töluverður undanfarin ár og nema útlán til greinarinnar um tíund af lánasafni bankanna. Verði samdráttur í tekjum af ferðaþjónustu gætu orðið útlánatöp í greininni en það eitt og sér mun ekki ná að tefla stöðu bankanna í tvísýnu,“ segir hún en bætir því að ef kæmi hins vegar til verulegs samdráttar í tekjum af ferðaþjónustu yrði það einnig áfall fyrir þjóðarbúið í heild vegna þeirra áhrifa sem það hefði meðal annars á gjaldeyristekjur og gengi krónunnar.
Ef bakslag kemur þá eykur hátt verð atvinnuhúsnæðis líkur á verðlækkun
Einn áhættuþáttur sem fjallað er um í Fjármálastöðugleika tengist hraðri hækkun raunverðs atvinnuhúsnæðis á undanförnum misserum, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu.
Rannveig segir að raunverðið sé nú orðið hátt miðað við flestar tengdar hagstærðir og í sögulegu samhengi. Hátt verð auki líkur á verðlækkun komi bakslag í efnahagslífið en sveiflur í verði atvinnuhúsnæðis hafi leikið stórt hlutverk í fjármálakreppum víða um heim. Útlán sem veitt hafa verið fasteigna- og byggingafyrirtækjum séu nú um fimmtungur útlána viðskiptabankanna þannig að verðlækkun atvinnuhúsnæðis gæti haft áhrif á bankana.
„Áhætta á húsnæðismarkaði er að öðru leyti svipuð og við útgáfu Fjármálastöðugleika í vor. Raunverð íbúðarhúsnæðis er nú hærra en það hefur áður verið en hækkun húsnæðisverðs í hlutfalli við laun, tekjur og byggingarkostnað virðist hafa stöðvast. Þar leggjast á eitt aukið íbúðaframboð, hægari fjölgun íbúða sem nýttar eru til skammtímaútleigu til ferðamanna og minni innflutningur vinnuafls. Eftirspurn er enn mikil en spáð er auknu framboði á næstu árum, enda húsnæðisverð enn hátt í hlutfalli við byggingarkostnað, og því útlit fyrir að betra jafnvægi geti skapast á húsnæðismarkaði,“ segir hún.
Efnahagsástand í helstu viðskiptalöndum Íslands hefur batnað
Skuldavöxtur heimilanna er hóflegur miðað við aðrar hagstærðir enn sem komið er þrátt fyrir mikla aukningu í húsnæðisauði heimilanna, segir Rannveig. „Mikilvægt er að heimilin nýti aukið veðrými til skuldaaukningar af varfærni. Húsnæðisskuldir heimilanna hafa vaxið um leið og aðrar skuldir þeirra hafa dregist saman. Aukist framboð á húsnæði meira en eftirspurn eða verði bakslag í ferðaþjónustu gæti húsnæðisverð gefið eftir og tapsáhætta bankanna aukist.“
Hún bendir á að efnahagsástand í helstu viðskiptalöndum Íslands hafi batnað undanfarin misseri en óvissa á alþjóðavettvangi hafi aukist í seinni tíð. Þá gætu alþjóðleg fjármálaleg skilyrði versnað fremur skyndilega, til að mynda ef snögg hækkun yrði á langtímavöxtum vegna endurmats á áhættu og/eða hærri verðbólguvæntinga. Slík þróun samfara mishraðri aðlögun peningastefnunnar á stærri gjaldmiðilssvæðum frá slaka til hlutleysis eða aðhalds gæti leitt til mikilla sveiflna í fjármagnsflæði og gengi gjaldmiðla.
Endurfjármögnunaráhætta bankanna á erlendum mörkuðum takmörkuð
Rannveig segir að endurfjármögnunaráhætta bankanna á erlendum mörkuðum næstu misseri sé takmörkuð því að lausafjárstaða þeirra í erlendum gjaldmiðlum sé mjög rúm. Eiginfjárstaða bankanna hafi verið vel yfir kröfum Fjármálaeftirlitsins um skeið en hafi lækkað í fyrra og í ár einkum vegna arðgreiðslna og nálgist nú kröfur eftirlitsins.
„Að teknu tilliti til hækkunar sveiflujöfnunarauka í maí á næsta ári og svo kallaðs stjórnendaauka er svigrúm til frekari lækkunar eiginfjárhlutfalla orðið lítið. Bankarnir eiga möguleika á að breyta eiginfjárskipan sinni með útgáfu víkjandi lána sem eykur svigrúm þeirra til frekari arðgreiðslna. Það form eiginfjár er þó veikara og mætir ekki tapi með sama hætti. Því væri æskilegt að stilla arðgreiðslum í hóf,“ segir hún.
Mikilvægt að fjármálafyrirtæki varðveiti viðnámsþrótt sinn
Rannveig segir að skref hafi verið tekin í að styrkja viðnámsþrótt fjármálafyrirtækja með kröfum um uppbyggingu eiginfjárauka á meðan kerfisáhætta sé enn takmörkuð. Áfram þurfi að huga að þeirri uppbyggingu með frekari hækkun sveiflujöfnunaraukans en tilgangur hans sé að styrkja viðnámsþrótt fjármálafyrirtækja gagnvart sveiflutengdri áhættu.
„Í ljósi þess að áhætta í fjármálakerfinu er að aukast, óvissa er um hve hratt dregur úr spennu í þjóðarbúskapnum og að alþjóðleg fjármálaskilyrði gætu versnað er mikilvægt að fjármálafyrirtæki varðveiti viðnámsþrótt sinn þannig að þau hafi burði til að mæta áföllum,“ segir hún.