Seðlabanki Íslands greip inn í gjaldeyrismarkaðinn um þrjúleytið dag til þess að sporna gegn gengisveikingu krónunnar, að því er fram kemur á vef Fréttablaðsins.
Seðlabankinn var ekki tilbúinn að staðfesta inngripið við Kjarnann, og vísaði til þess í svari sínu að tilkynning um viðskipti á gjaldeyrismarkaði birtust nokkru síðar. En eftir lokun markaða, þá staðfesti Seðlabankinn inngripið, samanber uppfært orðalag fréttarinnar, hér að neðan.
Kaup bankans á krónum stöðvuðu veikinguna og leiddu til þess að hún gekk að miklu leyti til baka, en eftir hádegið á markaðnum veiktist krónan skarpt, um tvö prósent gagnvart evru og Bandaríkjadal. Var Bandaríkjadalur kominn yfir 120 krónur og evran yfir 137.
Seðlabankinn greip síðast inn í gjaldeyrismarkaðinn 11. september síðastliðinn, og stöðvaði þá skarpa veikingu krónunnar innan dags, með 1,2 milljarða inngripi. Seðlabankinn leitast við að draga úr sveiflum á gjaldeyrismarkaði, og miðar inngripastefna hans að því.
Uppfært: Seðlabankinn hefur staðfest að inngrip áttu sér stað. Sent 16:03 :„Seðlabankinn staðfestir að í dag áttu sér stað inngrip á gjaldeyrismarkaði. Tölur verða birtar samkvæmt gildandi birtingaráætlun,“ segir í svari frá bankanum til Kjarnans.