Sjálfvirknisvæðing hefur nú þegar farið af stað í íslenskum matvöruverslunum en hefur ekki enn tekið yfir afgreiðslustörf starfsmanna í verslunum samkvæmt forstjóra Haga og framkvæmdastjóra Krónunnar. Fram kemur í nýrri skýrslu Rannsóknaseturs verslunarinnar, Íslensk netverslun, að ýmsar rannsóknir bendi til að verslunarstörfum muni fækka á næstu árum. Deloitte, alþjóðlegt ráðgjafafyrirtæki, hefur til dæmis áætlað störfum í verslun muni fækka um 60 prósent næstu tvo áratugi. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir í samtali við Morgunblaðið að ráðgjafarfyrirtækið McKinsey áætla í nýrri skýrslu að störfum í verslun í Mið-Evrópu muni fækka um 20 til 25 prósent næstu fimm ár. Hagstofa Íslands áætlar að um 27 þúsund manns starfi í verslun á Íslandi. Yfirfært á Ísland samsvari slík fækkun því að þúsundir starfa muni hverfa á næstu árum.
En talið er að sjálfsafgreiðsla muni leysa af hólmi hefðbundin afgreiðslustörf í verslun, ekki síst í stórmörkuðum í framtíðinni. Samtímis geti orðið til ný störf eftir því sem stærri hluti verslunar færist yfir í netverslun. Andrés telur að sú tilfærsla kalli á aukna menntun verslunarfólks og segir það áhyggjuefni fyrir fólk með lágmarksmenntun.
„Margir telja að menntunarkröfurnar verði allt aðrar og að gerð verði meiri krafa um háskólamenntun. Viðskipti yfir netið krefjast enda tækniþekkingar og þekkingar á markaðssetningu. Verkalýðshreyfingin virðist ekkert vera að velta fyrir sér hvernig störfin og kröfur vinnumarkaðarins eru að breytast. Það áhugaleysi vekur athygli. Fulltrúar VR virðast ekki vera að undirbúa þessa 27 þúsund félagsmenn sína í verslun til að takast á við breyttar aðstæður á gjörbreyttum vinnumarkaði. Þetta er ekki að fara að gerast eftir fimm ár heldur er þetta að gerast núna. Það hræðir menn,“ segir Andrés jafnframt.
Sjálfsafgreiðslukassar komnir upp
Finnur Árnason, forstjóri Haga, segir fyrirtækið hafa sett upp sjálfsafgreiðslukassa í Bónus og nú sé verið að setja upp slíka kassa einnig í Hagkaup.
„Það er ljóst af fyrstu viðbrögðum að það er áhugi á þessu. Sjálfsafgreiðslulausnir voru komnar á fullt erlendis fyrir 10 til 15 árum. Tæknin var prófuð á Íslandi fyrir tíu árum. Þá var lausnin bæði dýr og markaðurinn lítill þannig að þeir sem byrjuðu hættu. Nú eru viðhorfin breytt. Við erum með tæknifærara fólk en fyrir 10 til 20 árum. Hagkvæmnin í lausnunum er líka orðin miklu meiri. Hvort tveggja gerir það að verkum að þetta er orðið raunhæfur valkostur.“ segir Finnur í samtali við Morgunblaðið.
Hann segir um 2.300 manns starfa hjá Högum. Helmingurinn, um 1.150 manns, starfi við afgreiðslu. Hann segir aðspurður að undir „eðlilegum kringumstæðum“ hefði fjöldi afgreiðslufólks hjá Högum náð hámarki. „Hins vegar hefði engum dottið í hug fyrir 50 árum að hafa búðir opnar allan sólarhringinn. Ég veit ekki hvernig þetta verður eftir 20 til 30 ár; hvort allt verður þá opið,“ segir Finnur og bendir á verslanir Amazon Go í Bandaríkjunum. Þar sé ekki einn einasti afgreiðslumaður. „Tæknin mun auðvitað sjálfvirknivæða fleiri þætti þegar fram í sækir. Sjálfvirknivæðing er líka að eiga sér stað í vöruhúsum,“ segir Finnur.
Aðspurður hvort störfum í verslun á Íslandi muni fækka á næstu árum vegna þessara þátta kveðst Finnur „frekar hafa trú á því“. „Eins og er lítum við á þetta sem valkost. Okkar viðskiptavinir velja hvora leiðina þeir fara.“ Finnur segir verslunina meðvitaða um vægi launakostnaðar í rekstrinum. „Það er alveg ljóst að kostnaðargrunnur skiptir okkur verulegu máli og laun eru okkar stærsti kostnaðarliður.“
Mun ekki fækka fólki
Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Krónunnar, telur að sjálfaðgreiðslukössum muni fjölga „umtalsvert“ í Krónunni næstu ár. „Við gerum ráð fyrir að innleiða þetta smátt og smátt í fleiri verslanir. Það er takmarkandi þáttur að við fáum ekki nógu marga kassa. Það er aðeins einn umboðsaðili að þjónusta okkur og hann virðist ekki fá nægt magn af kössum. Innleiðingin gengur hægar en við gerðum ráð fyrir.“ Gréta María segir Krónuna bjóða viðskiptavinum þessa þjónustu svo þeir geti verið fljótir í gegn samkvæmt Morgunblaðinu.
„Reynslan sem er komin af þessari tækni bendir ekki til að hún muni fækka hjá okkur fólki. Við lítum á þetta sem aukna þjónustu.“ Spurð hvort fjöldi afgreiðslufólks hafi náð hámarki miðað við veltu bendir hún á að Krónu-búðirnar séu ólíkar. Hún sjái ekki fyrir sér að slíkum störfum fjölgi í stóru búðunum, þrátt fyrir aukna veltu. Sjálfvirknin muni taka við viðbótinni.