Íslensk stjórnvöld hafa ekki leitt í lög EES tilskipun 2014/52/EES vegna ferla í umhverfismati. Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur því ákveðið að vísa málinu til EFTA dómstólsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ESA.
„Í umhverfismati eru tekin til greina áhrif framkvæmda á umhverfið og eru niðurstöður þess notaðar til að taka ákvarðanir um hvort leggja skuli í fyrirhugaðar framkvæmdir. Tímafrestur til að innleiða reglugerðina rann út þann 16. maí 2017 en tilskipunin mælir fyrir um að málsmeðferðarferli sem hafist hefur fyrir þann tíma fari samkvæmt þeim reglum er giltu fram að þeim tíma. ESA og íslensk stjórnvöld hafa rætt málið ítrekað frá því að fresturinn rann út,“ segir í tilkynningunni.
Högni S. Kristjánsson stjórnarmeðlimur ESA segir umhverfismál vera mikilvægan hluta af EES samstarfinu og brýnt sé að íslensk löggjöf verði uppfærð sem fyrst.
Tilskipunin sem um ræðir skilgreinir ferla í umhverfismati og tryggir viðeigandi mat á framkvæmdum og öðrum verkefnum, á vegum hins opinbera eða einkaaðila, sem líkleg eru til þess að hafa teljandi áhrif á umhverfið áður en leyfi eru veitt. Tilskipunin uppfærir og einfaldar núverandi regluverk umhverfismats og gerir stjórnvöldum kleift að bæta umhverfisvernd á Íslandi, samkvæmt ESA.
„Þegar ESA vísar málum til EFTA dómstólsins er það lokaskrefið í formlegu samningsbrotamáli. Íslandi hefur áður verið gefinn kostur á að koma röksemdum sínum á framfæri sem og að ljúka málinu með því að innleiða tilskipunina innan gildandi tímamarka,“ segir í tilkynningunni.