Heimavellir hf. stærsta leigufélagið á almennum markaði og það eina slíka sem er skráð í Kauphöll Íslands, tapaði alls 36 milljónum króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2018. Vel gekk hjá félaginu á þriðja ársfjórðungi þar sem hagnaður þess var 100 milljónir króna. Hann er þó allur tilkomin vegna söluhagnaðar á fasteignum sem skilaði Heimavöllum 112 milljónum króna á tímabilinu. Þetta kemur fram í árshlutareikningi Heimavalla sem birtur var í dag.
Leigutekjur Heimavalla á fyrstu níu mánuðum ársins voru tæplega 2,8 milljarðar króna og söluhagnaður vegna sölu á fasteignum alls 222 milljónir króna á tímabilinu. Heimavellir áætla að tekjur ársins 2018 verði samtals 3,7 milljarðar króna, að þær verði tæplega 3,9 milljarðar króna á næsta ári og nái að verða rúmlega fjórir milljarðar króna árið 2020.
Fengu lán hjá Íbúðalánasjóði
Alls eiga Heimavellir 1.983 íbúðir og er virði eignasafns félagsins metið á 58,5 milljarða króna. Eigið fé er 18,7 milljarðar króna og heildarskuldir 39,7 milljarðar króna. Af langtímaskuldum Heimavalla eru verðtryggð lán frá lánastofnunum 30,6 milljarðar króna. Þau lán eru að mestu frá Íbúðalánasjóði og uppistaða þeirra eru lán sem veitt voru á grundvelli reglugerðar um lánveitingar sjóðsins frá árinu 2013 til sveitarfélaga, félaga og félagasamtaka sem ætlaðar eru til byggingar eða kaupa á leiguíbúðum. Markmið þeirrar reglugerðar er að „stuðla að framboði á leiguíbúðum fyrir almenning á viðráðanlegum kjörum“. Um síðustu áramót skulduðu Heimavellir 18,6 milljarða króna í slík lán. Það félög sem hafa fengið slík lán mega ekki greiða arð né arðsgildi.
Heimavellir hafa verið að undirbúa endurfjármögnun á langtímaskuldum sínum og í tilkynningu sem félagið sendi frá sér í lok ágúst sagði að fyrirhugað væri að hrinda endurfjármögnuninni í framkvæmd á næstu mánuðum.