Smári McCarthy, þingmaður Pírata, segir að þegar niðurstöður nýrrar skýrslu Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) eru skoðaðar í samhengi við loftslagsáætlun ríkisstjórnarinnar komi glögglega í ljós að áætlunin muni ekki bjarga neinu. Hún hafi ekki verið nógu góð áður en ný skýrsla IPCC kom út en núna sé hún hlægileg.
Þetta kom fram í máli Smára á Alþingi í sérstakri umræðu um skýrsluna í morgun.
Hann segir skýrsluna vera hryllingslestur. „Stutta útgáfan er að eini möguleikinn okkar til að takmarka hnattræna hlýnun við 1.5°C meðalaukningu á heimsvísu felst í því að hætta að nota jarðefnaeldsneyti eins hratt og hægt er, og breyta íslenskum iðnaði þannig að útblæstri koltvísýrings verði hætt. Töluverð föngun kolefnis getur frestað þessari niðurstöðu tímabundið, en eingöngu stórar breytingar á forsendum samfélagsins munu koma í veg fyrir ástand þar sem í besta falli milljónir deyja, þúsundir tegunda þurkast út og lífvænleiki jarðarinnar verður verulega skaddaður. Við skulum láta versta tilfellið liggja milli hluta í bili, en vísindin eru skýr á því að þetta er umræða upp á líf og dauða fyrir allt mannkynið. Í þeirri fullyrðingu er engin óþarfa drama, þetta er blákaldur veruleikinn,“ segir hann.
Smári telur að allir verði að skilja af hverju það stefni í að eftir örfáa áratugi verði jörðin ekki byggileg mannfólki. Hann segir að í aðgerðaráætluninni séu engin skýr markmið um hversu mikinn samdrátt í CO2-losun eigi að fylgja hverri aðgerð. Flestar aðgerðirnar snúist einungis um ómarkvissa tilfærslu peninga eða áætlunargerð, eins og það eitt muni bjarga einhverju.
„Losun Íslands eru 4,3 milljónir tonna koltvísýrings árlega. Til að ná markmiðum Parísarsamningsins fyrir 2030 þarf CO2 losun að vera komin í rétt um 3 milljónir tonna á ári,“ segir hann og bendir á að Íslendingar hafi 12 ár til að draga úr þessari losun, eða línulega um 83 þúsund tonna árlegan samdrátt í losun. Hann segir það þó ekki nóg. „Til að vera innan 1.5°C markanna, samkvæmt skýrslu IPCC, þarf töluvert meiri samdrátt. IPCC mælir með nettó núll losun fyrir árið 2055, til að haldast innan þolmarka,“ segir hann.
Markmiðið er að draga saman um 119 þúsund tonn
Smári segir jafnframt að Íslendingar geti ekki eytt meira en þeir eiga. „Losun okkar þarf að verða réttum megin við núllið fyrir miðja öld, annars horfum við fram á vistfræðilegt gjaldþrot. Til að ná því þarf línulegan samdrátt um 119 þúsund tonn á ári. Hvert ár sem við bíðum með að hefjast handa eykur á vandamálið.
Markmiðið er sumsé 119 þúsund tonna samdráttur á ári. En áætlun ríkisstjórnarinnar er ekki með neinn tölusettan samdrátt. Það á að verja 1.5 milljörðum króna í uppbyggingu innviða fyrir rafbíla, og gera á nýskráningu bíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti ólöglega árið 2030. Þá á að verja 4 milljörðum í kolefnisbindingu, sem frestar niðurstöðunni en stöðvar hana ekki. Við getum varla bundið neitt í dag og munum ekki geta bundið koltvísýring endalaust. Þetta, ásamt öðrum aðgerðum sem snúast aðallega um rannsóknir, gerir samtals 6 milljarða króna, yfir fimm ára tímabil, eða rétt rúmur milljarður króna á ári. Lausn í loftslagsmálum verður ekki keypt fyrir tæplega 0.1 prósent af árlegum fjárlögum ríkisins,“ segir hann.
Smári telur þó að hægt sé að ná markmiðinu en til þess þurfi töluvert beittari nálgun. „Að framleiða töluverðan hluta eldsneytisins sem við notum hér innanlands með efnaferlum sem ganga út á föngun koltvísýrings frá verksmiðjum og virkjunum er hluti af lausninni. Við gætum náð að minnka losun um 230 þúsund tonn fyrir lok 2021 með góðri fjárfestingu strax.“