Hlutabréfavísitölur í Bandaríkjunum hafa fallið um 10 prósent frá hámarki, á þessu ári, sé mið tekið af meðaltali helstu hlutabréfavísitala.
Niðursveifla hefur haldið áfram á mörkuðum í dag, og var lækkunin skörp. Nasdaq vísitalan lækkaði um rúmlega 2 prósent í dag og S&P 500 vísitalan lækkaði um 1,7 prósent.
Hagvöxtur í Bandaríkjunum mælist nú 3,5 prósent og er drifinn áfram af einkaneyslu, en vöxtur í fjárfestingu hefur verið að dragast saman, samkvæmt því sem fram kemur í umfjöllun Wall Street Journal.
President @realDonaldTrump, citing interest rate hikes, says he 'maybe' regrets nominating Fed boss Powell (via @FoxBusiness) https://t.co/MSbImuSX7M
— Fox News (@FoxNews) October 24, 2018
Ástæðan fyrir töluverðum titringi á mörkuðum að undanförnu er talin vera óvissa vegna hækkandi vaxta og viðskiptatollastríðs Kína og Bandaríkjanna. Stýrivextir eru nú 2,25 prósent í Bandaríkjunum og gera spár seðlabankans ráð fyrir að þeir hækki áfram á næsta ári.
Sum fyrirtæki hafa lækkað töluvert og má nefna Amazon sem dæmi, en markaðsvirði þess hefur fallið um 200 milljarða Bandaríkjadala, rúmlega 20 prósent, á undanförnum 5 vikum.
Microsoft er nú orðið verðmeira en Amazon, og er því næst verðmætasta fyrirtæki heimsins á eftir Apple.
Verðmæti Amazon lækkaði um tæplega 8 prósent í dag, og er nú rúmlega 800 milljarða Bandaríkjadala, eða sem nemur um 96 þúsund milljörðum króna.