Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir í samtali við Fréttablaðið í dag, að staða verkalýðshreyfingarinnar í landinu haf styrkst verulega að undanförnu, og ný forysta sé í kjörstöðu til að ná fram kjarabótum fyrir launafólk. „Ég held að allt launafólk og allir félagsmenn stéttarfélaga geti andað léttar og verið bjartsýnir. Samningsstaða okkar hefur styrkst alveg gríðarlega með því að forystan er að fara óklofin til leiks. Nú mega viðsemjendur okkar fara að vara sig,“ segir Ragnar Þór í viðtali við Fréttablaðið í dag, í tilefni af kjöri Drífu Snædal sem forseta ASÍ.
Drífa Snædal var kjörin nýr forseti ASÍ á 43. þingi sambandsins í gær fyrst kvenna. Tveir einstaklingar buðu sig fram til embættisins, þau Drífa Snædal framkvæmdastjóri SGS og Sverrir Mar Albertsson framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Afls.
Drífa hlaut 192 atkvæði eða 65,8 prósent en Sverrir Mar fékk 100 atkvæði eða 34,2 prósent. Atkvæði greiddu 293 og var eitt atkvæði ógilt.
Drífa er 45 ára viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands auk þess að vera með meistarapróf í vinnumarkaðsfræðum og vinnurétti frá Háskólanum í Lundi.
Hún hefur starfað sem framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands frá árinu 2012 en áður var hún framkvæmdastjóri Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs og Samtaka um Kvennaathvarf. Hún er fyrsta konan sem er kjörin í embætti forseta ASÍ í 102 ára sögu Alþýðusambands Íslands.
Framundan eru kjaraviðræður þar sem aðildarsamningur SA og ASÍ rennur út um áramótin.
Meðal krafna verkalýðshreyfingarinnar eru 425 þúsund króna lágmarkslaun, en þau eru 300 þúsund nú.