„Reynsla síðustu aldar af pólitískri íhlutun í frjálsa kjarasamninga á vinnumarkaði var skelfileg fyrir íbúa landsins, launafólk og atvinnulíf, sem þurftu áratugum saman að búa við margfalt meiri verðbólgu og víðtækari höft en í öðrum vestrænum ríkjum.“
Þetta segir Hannes G. Sigurðsson, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í ítarlegri grein í nýjustu útgáfu Vísbendingar, sem kom til áskrifenda á föstudaginn. Þar fjallar hann um íslenska hagsögu og hvernig árangurinn hefur verið af kjarasamningum, og ýmsum atriðum sem snúa að stjórnvöldum á hverjum tíma.
„Bein íhlutun stjórnvalda í kjarasamninga var regla fremur en undantekning á síðustu öld, allt fram að kaflaskiptunum sem áttu sér stað í lok níunda áratugarins. Segja mætti að eitt megineinkenni íslenska kjarasamningalíkansins á síðari hluta síðustu aldar hafi verið mikil og stöðug íhlutun stjórnvalda í kjarasamninga. Íhlutanirnar fólust gjarnan í lögfestingu breytinga á kjarasamningum sem ekki náðust fram í frjálsum samningum milli aðila á vinnumarkaði. Vinnutímastytting með lögunum um 40 stunda vinnuviku er eitt fjölmargra dæma. Óháð göfugum markmiðum velmeinandi stjórnmálamanna eru íhlutanir í kjarasamninga, sem ekki eru byggðar á efnahagslegu mati á svigrúmi atvinnulífsins til að taka á sig aukinn launakostnað, dæmdar til að valda miklum hremmingum og stuðla að óábyrgu atferli og ákvörðunum. Reynsla síðustu aldar af pólitískri íhlutun í frjálsa kjarasamninga á vinnumarkaði var skelfileg fyrir íbúa landsins, launafólk og atvinnulíf, sem þurftu áratugum saman að búa við margfalt meiri verðbólgu og víðtækari höft en í öðrum vestrænum ríkjum,“ segir Hannes meðal annars í greininni.
Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.