Fasteignaverð mun lækka að raunvirði á næstu árum eftir langt tímabil sem einkennst hefur af miklum hækkunum. Nafnverð mun standa í stað eða hækka lítið eitt, en að teknu tilliti til verðbólgu mun verð á fasteignum lækka.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri þjóðhagsspá greiningardeildar Arion banka en raunverð á fasteignum mun lækka um á bilinu 2 til 3 prósent fram til loka ársins 2021, samkvæmt spánni.
Verulega hefur dregið úr hækkunum á húsnæði að undanförnu, en árleg hækkun mældist mest 23,5 prósent á vormánuðum í fyrra.
„Eftir því sem framboð af nýjum eignum eykst hægir á verðhækkunum. Ójafnvægið sem skapast hefur milli húsnæðisverðs
og launa verður nánast horfið undir lok spátímans, þar sem laun hækka talsvert umfram húsnæði,“ segir í spánni.
Því er einnig spá að verðbólga aukist hratt á næstunni og farið upp í 4,5 prósent á næsta ári. Og samkvæmt spánni er gert ráð fyrir að meginvextir Seðlbanka Íslands muni fara hækkandi á næstunni og fari yfir 5 prósent á næsta ári.
Gangi spá greiningardeildarinnar eftir mun hagvöxtur á næsta ári vera 1,3 prósent á næsta ári, 3 prósent árið 2020 og 1,9 prósent árið 2021. Yfirskrift kynningar á efnhagshorfum til næstu þriggja ára er Sett í lága drifið, sem er til marks um að nú fari að hægja á hjólum efnahagslífsins eftir mikið uppgangstímabil.