Heiðveig María Einarsdóttir, sem hefur tilkynnt um framboð til formanns í Sjómannafélagi Íslands, hefur fengið bréf frá forystu félagsins, undirritað af Jónasi Garðarssyni, formanni, þar sem henni er vikið úr félaginu.
Frá þessu er greint á framboðssíðu Heiðveigar Maríu.
„Nú er ég endanlega orðlaus, ég vissi að þeir myndu ganga langt ! En að reka mig úr félaginu er eitthvað sem mig hafði ekki getað órað fyrir að gæti gerst , að minnsta kosti ekki í okkar heimshluta! Ég fékk bréf nú í dag frá formanni Sjómannafélagsins þar sem hann rak mig úr félaginu á grundvelli samþykktar trúnaðarmannaráðs eftir kröfu fjögurra fulltrúa hins sama ráðs !“ segir Heiðveig María á Facebook.
Í bréfi til hennar segir að hún hafi vegið að heiðri félagsins með órökstuddum hætti og farið fram gegn félaginu opinberlega. Þetta er ekki rökstutt með dæmum, en fjórir félagsmenn fóru fram á tillöguna, samkvæmt bréfi.
Hún hefur harðlega gagnrýnt forystu félagsins, og meðal annars bent á lausatök í starfsemi félagsins, ekki síst þegar kemur að formlegum lögum og reglum þess.
Í viðtali við 200 mílur, vef um sjávarútvegsmál, sagði hún meðal annars að lög félagsins hefðu ekki haldið á milli aðalfunda og tekið að breytast í tíma og ótíma. „Í fyrstu geri ég mér ekki alveg grein fyrir því hvað er að eiga sér stað, ekki fyrr en ég fer inn á vefsafn Landsbókasafns, þar sem geymd eru afrit af vef félagsins eins og hann lítur út hverju sinni. Þar sé ég að búið er að bæta inn í lögin ákvæði um að þeir einir séu kjörgengir til formennsku sem greitt hafi til félagsins í þrjú ár þar á undan,“ sagði Heiðveig María meðal annars í viðtali við 200 mílur.