Í nýrri hagspá hagfræðideildar Landsbankans fyrir árin 2018 til 2021 er gert ráð fyrir að hægja muni verulega á hagvexti næstu árin eftir kröftugan vöxt undanfarinna ára en á sama tíma mun verðbólga aukast. Samkvæmt spá bankans eru efnahagshorfur engu að síður jákvæðar því gert er ráð fyrir hóflegum en viðvarandi hagvexti næstu ár. Hagvöxtur verður samkvæmt spá bankans 3,9 prósent á þessu ári, 2,4 prósent á næsta ári, og rúmlega 2 prósent árin 2020 og 2021. Nýja þjóðhags- og verðbólguspá bankans var kynnt á morgunfundi í Hörpu í dag.
Verðbólga eykst
Verðbólguhorfur eru talsvert lakari en síðustu ár og er gert ráð fyrir að verðbólgan verði komin í um 3,5 prósent í lok þessa árs. Gert er ráð fyrir að verðbólga eigi eftir að aukast nokkuð á næsta ári og verði mest 3,75 prósent um mitt næsta ár. En verði að meðaltali um 3,3 prósent á tímabilinu 2019-2021. Samkvæmt hagspánni er helstu drifkraftarnir á bak við lakari verðbólguhorfur skörp veiking krónunnar og hækkandi innflutningsverð en eldsneytisverð skiptir þar verulegu máli.
„Óvissan varðandi verðbólguspána er töluvert meiri að þessu sinni en oft áður. Þar vegur þungt að nánast ómögulegt er að spá réttilega fyrir um þróun gengis krónunnar og olíuverðs. Aukið flökt á bæði krónunni og olíuverði gerir það verkefni ekki viðráðanlegra. Eins er mikil óvissa um niðurstöður komandi kjaraviðræðna aðila vinnumarkaðarins. Verði almennt samið um hækkun launa langt umfram framleiðnivöxt í þjóðarbúinu mun það, að öðru óbreyttu, leiða til töluvert verri verðbólguhorfa en hér er gert ráð fyrir.“ segir í hagspánni.
Hagfræðideild telur líklegt að peningastefnunefnd Seðlabankans ákveði að hækka vexti um 0,25 prósentustig seinna á þessu ári og að meginvextir bankans verði þar með 4,5 prósent. Búast megi við frekari hækkun vaxta á næsta ári og að þeir verði þá 5,0 prósent.
Ákveðin þáttaskil í hagsveiflunni
Eftir að efnahagsaðstæður hér á landi hafa að miklu leyti verið hagfelldar síðustu ár telur spáin að nú virðist vera komið að ákveðnum þáttaskilum í hagsveiflunni. Verðbólga hefur verið nær viðvarandi undir 2,5 prósent, verðbólgumarkmiði Seðlabankans frá febrúar 2014 allt fram á mitt þetta ár og samfelldur hagvöxtur hefur mælst frá árinu 2011. Kaupmáttur launa hefur aldrei verið hærri, atvinnuleysi er lágt og skuldir heimila og fyrirtækja lágar í sögulegu samhengi. Staða ríkissjóðs er sterk og hrein erlend skuldastaða þjóðarbúsins hefur aldrei verið hagstæðar segir í skýrslunni. Nú hins vegar er spáð að verðbólga aukist og það muni hægja á hagvexti. Samkvæmt spánni eru efnahagshorfurnar engu að síður jákvæðar því gert er ráð fyrir hóflegum en viðvarandi hagvexti á spátímanum.
Líklegt þykir að gengi krónunnar veikist á spátímanum frekar en að það styrkist. Samkvæmt spánni eru þó engar forsendur til að álykta að sú breyting verði veruleg miðað við núverandi gildi krónunnar Gert ráð fyrir að gengi krónu gagnvart evru verði nálægt 140 í lok spátímans. Meðalgengi krónu gagnvart evru það sem af er árinu er nú um 125. Veiking á gengi krónunnar síðustu vikur muni því að öllum líkindum koma fram í aukinni verðbólgu á næstu mánuðum. Ef spá hagfræðideildar gengur eftir um lítils háttar gengisveikingu næstu ára þá mun það einnig vega þungt í verðbólguþróuninni á spátímabilinu.
Rólegra á fasteignamarkaði og hægir á ferðamönnum
Verulega hefur hægt á hækkun fasteignaverðs á síðustu mánuðum en ákveðin ró hefur færst á markaðinn eftir mikinn hamagang fram á mitt ár 2017. Heildarhækkun húsnæðisverðs á höfuðborgarsvæðinu var 3,9 prósent á einu ári fram til september 2018 og hækkunin ekki verið lægri síðan vorið 2011.
Eftir að óvissan í kringum væntanlega kjarasamninga róast þá telur spáin að fasteignamarkaðurinn leiti smá saman í svipað horf og hefur verið til lengri tíma. En spáð er að fasteignaverð hækki um 4,3 prósent á þessu ári, 4 prósent á næsta ári, 6 prósent árið 2020 og 8 prósent árið 2021.
Hagspáin gerir ráð fyrir að hægi muni á fjölgun ferðamönnum á næstu árum og verði aðeins um 2 prósent á árunum 2019 til 2021. Fjölgunin hefur verið í kringum 6 prósent á þessu ári. Mest hefur fjölgun ferðamanna hér á landi verið tæplega 10 prósent.
Samneysla mun halda áfram að aukast
Samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2019 aukast heildarútgjöld ríkissjóðs um 6,9 prósent frá fjárlögum síðasta árs og heildartekjur ríkissjóðs aukast um 6,1 prósent. Þetta veldur því að heildarjöfnuður verður einungis um 1 prósent af vergri landsframleiðslu sem er lægra en þau 1,2 prósent sem stefnt hefur verið að til þessa. Útgjaldavöxturinn er því við efri mörk hins mögulega eins og fjármálaráð hefur ítrekað bent á segir í skýrslunni.
Samneysla jókst um 3,1 prósent árið 2017 og hlutur hennar af VLF hækkaði þá í fyrsta skipti frá 2009. Á undanförnum ársfjórðungum hefur samneysla aukist stöðugt hjá ríki, sveitarfélögum og almannatryggingum og hefur aukningin verið nokkuð stöðug hjá sveitarfélögunum.
Hagfræðideildin telur ólíklegt að takast muni að hemja samneysluútgjöld eins mikið og stefnt er að. Eins og áður segir er áætlað að samneyslan hafi aukist um 3,1 prósent á síðasta ári, þrátt fyrir markmið um minni aukningu. Reiknað er því með því að samneysla aukist um 2,7 prósent á yfirstandandi ári og vegi aukin útgjöld til heilbrigðismála og félags-, trygginga- og húsnæðismála þar þungt. Spáð er að samneysla muni aukast um 2,6 prósent árið 2019, 2,3 prósent árið 2010 og 2 prósent árið 2021.