Hagnaður Marel á þriðja ársfjórðungi nam 26,7 milljónum evra, eða sem nemur 3,7 milljörðum króna. Þetta er umtalsverð bæting milli ára, en tekjuaukning var um 14 prósent.
Marel hefur nú þrengt skoðun sína við erlenda skráningu á markað við kauphallirnar í Kaupmannahöfn, Amsterdam og London, en félagið verður síðan einnig skráð á Íslandi eins og hingað til.
Þá hyggst félagið fara í hlutafjáraukningu meðfram skráningu, og hefur hlutahafafundur verið boðaður í félaginu 22. nóvember þar sem lagðar verða fram tillögur til samþykktar.
Forstjórinn, Árni Oddur Þórðarson, segir um þetta í tilkynningu:
„Við erum ánægð með rekstrarniðurstöðu þriðja ársfjórðungs sem og fyrstu níu mánuði ársins. Á fjórðungnum nam tekjuaukning á milli ára 14% og EBIT framlegð var 14,2%. Á fyrstu níu mánuðum ársins var tekjuvöxtur 17% og EBIT framlegð 14,6%. Hagnaður á hlut hefur aukist jafnt og þétt undanfarin fimm ár.
Á þriðja ársfjórðungi gengum við formlega frá kaupunum á MAJA að heildarvirði 35 milljónum evra og keyptum eigin bréf fyrir 30 milljónir evra. Fjárhagsstaða okkar er sterk og nettó skuldir nema um það bil tvisvar sinnum EBITDA.
Það eru áhugaverðir tímar á alþjóðamörkuðum í kjúklinga-, kjöt-, og fiskiðnaði. Viðskiptahindranir og umrót í alþjóðakerfinu mynda ósamræmi í framboði og eftirspurn matvæla innan heimshluta en á sama tíma er eftirspurn neytenda á heimsvísu að aukast. Þetta kann að hafa í för með sér minni nýfjárfestingar viðskiptavina okkar á næstu tveimur til þremur ársfjórðungum eftir kröftugan vöxt pantana í byrjun ársins. Neytendur leita í auknum mæli eftir öruggum og hagkvæmum matvælum og samhliða því eykst spurnin eftir hátæknilausnum til matvælavinnslu. Við störfum á ört vaxandi markaði og með sterkri markaðssókn og nýsköpun stefnir Marel að innri vexti umfram almennan markaðsvöxt.
Áform um skráningu hlutabréfa Marel í alþjóðlegri kauphöll ganga samkvæmt áætlun. Við höfum þrengt valkosti okkar niður í þrjár mögulegar kauphallir; Amsterdam, Kaupmannahöfn og Lundúnir. Nú er stefnt að tvíhliða skráningu þar sem hlutabréf Marel yrðu skráð í eina af ofangreindum kauphöllum til viðbótar við núverandi skráningu í íslensku kauphöllinni. Það er trú okkar að með því sé hagsmunum núverandi og verðandi hluthafa Marel best borgið.“
Hluthafafundur þann 22. nóvember 2018
Samhliða áætlunum félagsins um tvíhliða skráningu, gerir stjórn félagsins ráð fyrir að óska eftir heimild hluthafa á aðalfundi félagsins árið 2019 til að hækka heildarhlutafé félagsins um allt að 15%, í þeim tilgangi að styðja við árangursríka skráningu á erlendum markaði, virka verðmyndun og seljanleika bréfanna.
Til að samræma hagsmuni núverandi hluthafa og framtíðarhluthafa í tengslum við framangreinda áformaða hlutafjárhækkun, í tengslum við áætlun félagsins um tvíhliða skráningu, leggur stjórn Marel nú fram tillögur til umfjöllunar á hluthafafundi þann 22. nóvember nk., annars vegar um lækkun hlutafjár félagsins og hins vegar um heimild til stjórnar félagsins til þess að setja upp formlega endurkaupaáætlun á eigin bréfum. Tillagan er í samræmi við lög um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007, reglugerð um innherjaupplýsingar og markaðssvik nr. 630/2005 og lög um hlutafélög nr. 2/1995.
Marel sækir fjármagn á þýska Schuldschein markaðinn
Marel sækir á nýja fjármagnsmarkaði til að auka fjölbreytileika í fjármögnun félagsins og hyggst gefa út óveðtryggt Schuldschein bréf. Núverandi lágvaxtaumhverfi gefur félaginu tækifæri til að nálgast langtíma fjármögnun á hagstæðum kjörum. Heildarupphæð fjármögnunarinnar verður að minnsta kosti 100 milljónir evra og verður fjárfestum boðið upp á bæði breytilega og fasta vexti til 5, 7 og 10 ára. Lánskjör ráðast ekki fyrr en söfnun áskrifta er lokið. Stefnt er að lokun útboðsins fyrir árslok og væntingar standa til að lánskjör hafi jákvæð áhrif á heildarfjármagnskostnað félagsins. Stjórnendur hafa falið ABN AMRO N.V, Bayerische Landesbank og Unicredit Bank AG að sjá um útboðið.“
Markaðsvirði Marel er nú rúmlega 289 milljarðar króna, en eins og greint var frá á vef Kjarnans þá verðmetur greiningarfyrirtækið Stockviews í London Marel á umtalsvert meira, eða sem nemur um 433 milljörðum, sé horft til næstu tólf mánaða í rekstrinum.
Stærsti eigandi félagsins er Eyrir Invest með 25,8 prósent hlut. Þórður Magnússon á 19 prósent hlut í félaginu og Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, um 16 prósent.