Reykjavíkurborg kynnti í morgun nýtt verkefni um hagkvæmar íbúðir fyrir ungt fólk. Til stendur, í fyrsta áfanga verkefnisins, að byggja að minnsta kosti 525 íbúðir á sjö mismunandi reitum.
Samkvæmt verkefninu verður lóðum úthlutað á föstu verði, sem er kr. 45.000 á hvern fermetra ofanjarðar auk gatnagerðargjalda, nema annars sé sérstaklega getið. Það á að skila því að íbúðirnar verði mun ódýrari en nýjar íbúðir á markaði í dag eru.
Reitirnir sem um ræðir eru í Úlfarsárdal (40 íbúðir), á Kjalarnesi (tíu íbúðir), í Gufunesi (164 íbúðir), í Bryggjuhverfi við Elliðaárvog (163 íbúðir), við Sjómannaskólann (40 íbúðir), á Veðurstofureit (50 íbúðir) og í Skerjafirði (72 íbúðir).
Verkefnið er afrakstur þess að borgin auglýsti fyrr á þessu ári eftir hugmyndum að samstarfsaðilum til að þróa og hanna hagkvæmt húsnæði fyrir ungt fólk og fyrstu kaupendur á ákveðnum lóðum í borginni. Til stendur að vinna uppbygginguna á grunni þeirra hugmynda sem skilað var inn. Á fundinum í morgun fóru þeir samstarfsaðilar sem borgin hefur valið yfir frumhugmyndir sínar um hagkvæmt húsnæði fyrir ungt fólk á reitunum. Reykjavíkurborg leggur ríka áherslu á að framkvæmdir hefjist eins fljótt og auðið er og að þær gangi hratt fyrir sig.
Ungu fólki í foreldrahúsum fjölgar
Staða ungs fólks á húsnæðismarkaði hefur versnað til muna á síðustu árum. Í nýrri skýrslu sem Íbúðalánasjóður og velferðarráðuneytið kynntu á Húsnæðisþingi í vikunni kom meðal annars fram að sðstoð við að kaupa fyrstu íbúð hefur aukist gríðarlega. Á árunum 1990-2009 var það hlutfall rúmlega 40 prósent en frá 2010 hefur það verið tæplega 60 prósent.
Í könnun MMR sem birt var í vikunni kom einnig fram að 45 prósent Íslendinga á aldrinum 18-29 ára búa í foreldrahúsum. Í fyrra var það hlutfall 37 prósent og árið 2016 var það 29 prósent.
Vill fá ríkisvaldið og fjármögnunaraðila með
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, ræddi verkefnið í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut á miðvikudag. Þar sagði hann að huga þyrfti sérstaklega að ungu fólki og fyrstu kaupendum á húsnæðismarkaði. Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan.
Dagur sagði að verkefnið, sem borgin kynnti í morgun, byggi á því að kallað hefði verið eftir nýjum hugmyndum og nýrri hugsun fyrir fyrstu kaupendur. „Við erum að leggja undir þetta lóðir á einum sjö stöðum í borginni. Það voru fjöldi aðila sem sendu inn hugmyndir. Þeim hefur nú verið gefið einkunn og við erum nú að hefja viðræður við þá um lóðaúthlutanir. Í þessum fyrsta áfanga verða þetta yfir 500 íbúðir. 525 íbúðir allavega. Hugsanlega er hægt að fjölga þeim eitthvað í skipulagsvinnunni. Þannig að þarna er líka að koma inn nýtt spennandi verkefni með nýsköpun, með þarfir þessa hóps sem hefur verið dálítið útundan í mínum huga og við myndum gjarnan vilja fá ríkisvaldið og fjármögnunaraðila með í næstu skref í þessu þannig að þetta nýtist eins vel og við viljum.“