„Það eru þúsundir einstaklinga í þessu samfélagi sem eru að glíma við gigt. Ég er einn af þeim. Ég ætla að reyna að standa mig gagnvart heilsunni eins og ég ætla að reyna að standa mig í vinnunni.“
Þetta sagði Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, í viðtali við Þórð Snæ Júlíusson, ritstjóra Kjarnans, í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut sem frumsýnt var á miðvikudag. Hægt er að horfa á stiklu úr viðtalinu hér að neðan.
Dagur hefur verið frá vegna veikinda undanfarnar vikur en kom aftur til starfa í byrjun liðinnar viku. Hann greindist með fylgigigt í sumar, sem er sjaldgæfur gigtarsjúkdómur, og er á sterkum lyfjum vegna hennar.
Þau lyf eru ónæmisbælandi og vegna töku þeirra er meiri hætta á sýkingum en ella. „Þetta hefur gengið býsna vel og ég var ansi brattur. Var farinn að hlaða á mig eins og í gömlu góðu daga, þegar það tók sig upp sýking sem ég var með síðasta vetur. Ég þurfti tíma til þess að ná henni niður með sýklalyfjum og hvíld. En er núna kominn aftur til starfa. Ég þarf kannski að passa að fara of geyst.“