Glitnir HoldCo hefur farið fram á heimild Hæstaréttar til að áfrýja lögbannsmáli gegn Stundinni og Reykjavik Media til réttarins, og freistar þess þannig að fá lögbannið staðfest á þriðja dómsstigi eftir að hafa tapað málinu í héraðsdómi og Landsrétti.
Frá þessu er greint á vef Stundarinnar.
Lögbannið var sett á 16. október í fyrra af Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu en í bæði dómum héraðsdóms og Landsréttar hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að lögbannið raski grundvallargildum tjáningarfrelsis, og það samræmist ekki lögum.
Ólafur Eiríksson hrl. hefur rekið málið fyrir hönd Glitnis Holdco.
Stundin hélt áfram umfjöllun sinni, sem lotið hafði lögbanni, í síðasta tölublaði sínu sem kom út á föstudag. Var það gert þar sem Landsréttur var búinn að dæma það ólöglegt.
Nú er það í höndum Hæstaréttar að ákveða hvort það fáist heimild til að áfrýja málinu, og taka það til efnismeðferðar þar.
Í umfjöllun Stundarinnar hefur meðal annars verið fjallað um viðskipti Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra og formanns Sjálfstæðisflokksins, í kringum hrun fjármálakerfisins, en hann var þá bæði þingmaður og þátttakandi í viðskiptalífinu.