Í leiðara Morgunblaðsins í dag er Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins, harðlega gagnrýnd fyrir að vera „merkisberi“ innleiðingu þriðja orkupakka Evrópusambandsins.
Þar segir að ríkisstjórnin, sem samanstendur af Vinstri grænum, Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum, sýni af sér „eindreginn brotavilja varðandi „þriðja orkupakkann“ og pantar sér ótæk „lögfræðiálit“ til réttlætingar. Í minni er hve auðkeyptir „sérfræðingar“ voru í hinu ömurlega Icesavemáli. Ekkert hefur laskað Sjálfstæðisflokkinn eins og það mál. Og orkupakkinn, „Icesave, taka tvö,“ er skrítnara, og það að horfa á varaformann flokksins gerast þar merkisberi! Það veldur óendanlegum vonbrigðum. Við blasir að vísa því máli til þjóðarinnar.“
Ritstjórnar Morgunblaðsins eru Haraldur Johannessen og Davíð Oddsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins. Málflutningurinn í leiðaranum ber þess öll merki að Davíð hafi skrifað hann, enda mjög í takt við fyrri skrif hans í ritstjórnargreinum Morgunblaðsins um hinn svokallaða þriðja orkupakka.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Davíð gagnrýnir Þórdísi Kolbrúnu sérstaklega vegna málsins. Það gerði hann líka í september í leiðara þar hann sagði Þórdísi Kolbrúnu hafa látið rugla sig í ríminu. Hann sagði líka að: „Erfitt væri að ímynda sér að þingmenn Sjálfstæðisflokksins muni standa að þessu máli, að minnsta kosti ekki þeir fáu sem hlupust ekki undan merkjum í Icesave.“
Sagðist hlusta á gagnrýni
Þórdís Kolbrún ræddi þriðja orkupakkann í sjónvarpsþættinum 21 á Hringbraut í nýliðnum mánuði. Hægt er að sjá viðtalið við hana hér að neðan. Umræður um orkupakkann eru í upphafi þess.
Þar sagðist hún hlusta á gagnrýni um málið en benti á að Ísland hafi aldrei ákveðið að aflétta ekki stjórnskipulegum fyrirvara til að innleiða tilskipun frá Evrópusambandinu. „Það er engin hræðsluáróður að segja að við vitum ekki hvert það leiðir okkur. Vegna þess að ég hef engan heyrt svara því[...]„Ég er ekki sannfærð um að þetta sé slagur sem við eigum að taka, um efni máls, það er þessa þriðja orkupakka. Að við ætlum ekki að aflétta stjórnskipunarlegum fyrirvara.“
Þórdís Kolbrún sagði enn fremur að það verði að koma í ljós hvað þingmenn flokksins geri í málinu. „Ég segi bara að okkur liggur ekkert á að afgreiða þetta mál. Þessi umræða hún truflar mig ekkert. Mér finnst hún fín ef hún á endanum leiðir til þess að við komumst lengra í að ræða það sem málið snýst um. Það eru auðvitað skiptar skoðanir innan allra stjórnarflokkanna um þetta mál.“
Tveir sérfræðingar segja áhrifin nær engin
Í minnisblaði sem lögmaðurinn Ólafur Jóhannes Einarsson, áður framkvæmdastjóri hjá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA), gerði fyrir Þórdísi Kolbrúnu, og birt var opinberlega 17. apríl, kom skýrt fram að þriðji orkupakkinn haggi í engu heimildum íslenskra stjórnvalda til að banna framsal á eignarrétti að orkuauðlindum og rétti Íslands til að ákveða með hvaða skilyrðum orkuauðlindir landsins eru nýttar.
Í september vann svo lögmaðurinn Birgir Tjörvi Pétursson greinargerð þar sem fjallað var um hinn svokallaða þriðja orkupakka Evrópusambandsins og komst að því að hann kalli ekki á endurskoðun EES.