Á framhaldshluthafafundi HB Granda í dag voru kaup félagsins á útgerðarfélaginu Ögurvík, sem er í eigu Útgerðarfélags Reykjavíkur, áður Brims, samþykkt.
Tæplega 96 prósent þeirra hluthafa sem sátu fundinn samþykktu kaupin, eftir að kynning hafði farið fram á minnisblaði sem fyrirtækjasvið Kviku banka vann um viðskiptin, en Gildi lífeyrissjóður kallaði eftir því að matið færi fram á viðskiptunum á fundi 16. október.
Fulltrúar rúmlega 4 prósent hlutafjár voru á móti viðskiptunum, samkvæmt tilkynningu.
Samkvæmt minnisblaði Kviku banka, sem byggir á gögnum frá stjórn og stjórnendum HB Granda, er ávinningur af viðskiptunum umtalsverður fyrir félagið.
„Niðurstaða verðmats FRK, að teknu tilliti til fyrirliggjandi gagna og framangreindra forsendna, er að áætlaður ávinningur HB
Granda af viðskiptunum sé á bilinu 19,2-38,2 m.evra. (m.v. gengi evrunnar við gerð kaupsamningsins) eða 19,4% - 38,6% af
kaupverði Ögurvíkur,“ segir í kynningu Kviku.
Kaupverðið á Ögurvík er 12,3 milljarðar króna.
Forstjóri HB Granda er Guðmundur Kristjánsson, sem jafnframt er stærsti eigandi stærsta hluthafa félagsins, Útgerðarfélags Reykjavíkur, en félagið á rúmlega 35 prósent hlut í HB Granda.
Markaðsvirði félagsins er 57,5 milljarðar.