Stjórn VÍS barst í dag bréf frá þremur hluthöfum, annars vegar Lífeyrissjóði verslunarmanna (8,64%) og hins vegar Lífeyrissjóði Starfsmanna ríkisins A-deild (5,27%) og B-deild (0,98%), þar sem farið er fram á að stjórn félagsins boði til hluthafafundar þar sem stjórnarkjör er sett á dagskrá. Samtals eiga þessir þrír hluthafar 14,89% í VÍS.
Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá VÍS.
Á dögunum sögðu tveir stjórnarmenn sig úr stjórn VÍS, þau Helga Hlín Hákonardóttir og Jón Sigurðsson. Í stjórninni eru nú Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir, Gestur Breiðfjörð Gestsson og Valdimar Svavarsson, sem jafnframt er stjórnarformaður.
Í 85. gr. laga um hlutafélög nr. 2/1995 og 1. mgr. 12. gr. samþykkta VÍS kemur fram að boða skuli til hluthafafundar ef hluthafar, sem ráða yfir minnst 5% hlutafjárins, krefjast þess skriflega og greina fundarefni. Samkvæmt sömu greinum hefur stjórn 14 daga til að senda út fundarboð.
„Stjórn félagsins mun á næstu dögum taka afstöðu til þessara krafna hluthafanna og undirbúa boðun hluthafafundar,“ segir í tilkynningu frá VÍS.
Lífeyrissjóður verslunarmanna er stærsti einstaki hluthafi félagsins. Eigið fé VÍS var í lok þriðja ársfjórðungs 14,7 milljarðar króna og heildareignir rúmlega 48 milljarðar.