Reykjavíkurborg segir að auglýst hafi verið erftir samstarfaðilum um rekstur Mathallar við Hlemm á sínum tíma og að fjögur teymi hafi sent inn hugmyndir. Teymi frá Sjávarklasanum hafi fengið hæstu einkunn eftir mat á þeim hugmyndum og því hafi verið samið við það um rekstur Hlemms.
Í tengslum við samninga sem gerðir voru við Sjávarklasann um þróun og rekstur Mathallarinnar hafi þrír löggiltir fasteignasalar verið fengnir til að leggja mat á útleiguverið fasteignarinnar við Hlemm. Í tilkynningu frá borginni segir að með því að byggja á mati þessarra þriggja fasteignasala, sem allir höfðu að sögn borgarinnar mikla þekkingu á fasteignamarkaði atvinnuhúsnæðis í borginni, „var tryggt að húsið væri leigt út á markaðskjörum.Leiguverðið tók þar mið af stöðu atvinnuhúsnæðis á svæðinu auk þeirra kvaða sem borgin lagði á eignina.“
Húsaleigan hafi í kvölfarið verið ákvörðuð 1.012.000 krónur í leigusamningi sem skrifað var undir í febrúar 2016. Rúmu ári síðar, 26. maí 2017, var síðan gerður viðauki við samninginn þar sem leiga var hækkuð vegna þess að Reykjavíkurborg féllst á að greiða rafstýrðar grindur fyrir bása. Við það hafi leiguverð hækkað upp í 1.143.179 krónur á mánuði, og þar sem leiguverðið er tryggt með vísitölu neysluverðs til verðtryggingar er það nú 1.209.254 krónur á mánuði.
Gagnrýnd fyrir að einkavæða hagnaðinn
Framkvæmd borgarinnar á útleigu á Hlemmi undir mathöll hefur verið harðlega gagnrýnd undanfarið. Viðar Freyr Guðmundsson, sem var á lista Miðflokksins fyrir síðustu borgarstjórnarkosningar, skrifaði til að mynda grein í Kjarnann 25. október þar sem hann fjallaði um umræður um Hlemm Mathöll sem farið höfðu fram á borgarstjórnarfundi í vikunni áður. Þar sagði Viðar m.a.: „Fram kom í umræðum að veitingamenn í Hlemmi Mathöll njóti ekki þessa lága leiguverðs, heldur er einn stór milliliður, Hlemmur Mathöll ehf. sem leigir áfram húsnæðið til allra hinna og tekur væntanlega sinn hagnað af því. Maður gæti ímyndað sér að hið áframselda leiguverð sé nálægt markaðsvirði. Leigusamningurinn gildir til 10 ára. Þarna er borgin búin að einkavæða allan hagnaðinn af leigunni.“
DV birti síðan frétt um liðna helgi þar sem kom fram að tvö fyrirtæki í eigu Þórs Sigfússonar, forsvarsmanns Sjávarklasans, væri að hagnast vel á leigu á Hlemm Mathöll og áframleigu á öðru húsnæði í eigu borgarinnar, þar sem Grandi Mathöll er staðsett.