Ríkið áformar að verja 94,4 milljörðum króna í fjárfestingar í uppbyggingu og stækkun Keflavíkurflugvallar á árunum 2019 til 2022. Þetta kemur fram í svari Sigurðar Inga Jóhannssonar samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við fyrirspurn frá Smára McCarthy um uppbyggingaráform á Keflavíkurflugvelli.
Í svarinu eru ætlaðar fjárfestingartölur fyrir Isavia sundurliðaðar eftir árum:
- 2019 áætluð fjárfesting 21,5 milljarðar króna.
- 2020 áætluð fjárfesting 24,3 milljarðar króna.
- 2021 áætluð fjárfesting 24,9 milljarðar króna.
- 2022 áætluð fjárfesting 20,7 milljarðar króna.
Ítrekað er í svarinu að um sé að ræða áætlun og við hana verði að gera fyrirvara. Í fyrsta lagi liggi ekki fyrir endanleg staðfesting á að farið verði í þau verkefni sem áætluð hafa verið. Í öðru lagi er vakin athygli á því að áætlaður kostnaður geti breyst við útboð.
Isavia er opinbert hlutfélag og er þar af leiðindi í eigu íslenska ríkisins. Fyrirtækið annast rekstur og uppbyggingu allra flugvalla á Íslandi og stýrir jafnframt flugumferð í íslenska flugstjórnunarsvæðinu. Þannig hefur Isavia yfirumsjón með Flugstöð Leifs Eiríkssonar og rekur fríhöfnina.
Unnið að undirbúningi nokkurra verkefna
Smári spurði jafnframt hversu miklar núverandi skuldbindingar varðandi fyrirhugaða uppbyggingu á Keflavíkurflugvelli væru. Í svarinu segir að Isavia hafi ekki gengið frá neinum skuldbindingum vegna verklegra framkvæmda sem tengjast uppbyggingaráætluninni. Unnið sé að undirbúningi nokkurra verkefna, þar með talið með frekari þarfagreiningu og hönnun.
„Eingöngu liggur fyrir rammasamningur við hönnuði vegna verklegra framkvæmda á flugvellinum og hönnun á fyrsta fasa uppbyggingaráætlunarinnar sem lýtur að tengibyggingu milli suður- og norðurbyggingar. Auk þess er unnið að útboði á verkefnastjórn vegna annars fasa uppbyggingaráætlunar en ekki hefur verið gengið frá neinum skuldbindingum vegna verklegs hluta framkvæmda eins og er,“ segir í svari ráðherra.