Til stendur að Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra leggi fram frumvarp um ný heildarlög um ófrjósemisaðgerðir. Markmið laganna er að heimila framkvæmd ófrjósemisaðgerðar að beiðni einstaklings eða þegar sérstakar ástæður liggja fyrir.
Samráð stendur yfir á samráðsgátt stjórnvalda til 15. nóvember næstkomandi.
Í markmiðsákvæði laganna er tekið fram að gæta skuli mannréttinda og mannhelgi einstaklinga í hvívetna við framkvæmd laganna. Lagt er til að lögin eigi ekki við ef um nauðsynlega læknismeðferð er að ræða, enda þótt ófrjósemi hljótist af.
Tvenns konar heimildir lagðar til
Í lögunum er ófrjósemisaðgerð skilgreind sem það þegar sáðgöngum karla og eggleiðurum kvenna er lokað til að binda enda á frjósemi. Tvenns konar heimildir fyrir ófrjósemisaðgerðum eru lagðar til, annars vegar að ósk einstaklings sem hefur náð 18 ára aldri og hins vegar á einstaklingi sem er ólögráða fyrir æsku sakir, þegar ætla má að frjósemi viðkomandi hafi alvarleg áhrif á líf eða heilsu einstaklingsins, en fyrir slíkri heimild er sett það skilyrði að fyrir liggi staðfesting tveggja lækna um fyrrgreind áhrif á heilsu og samþykki sérstaklega skipaðs lögráðamanns.
Þá er lagt til að einstaklingur hljóti fræðslu áður en ófrjósemisaðgerð er gerð um í hverju aðgerðin er fólgin, áhættur samfara henni og afleiðingar. Gert er ráð fyrir að sett verði skilyrði um að umsóknin sé undirrituð af þeim einstaklingi sem sækir um aðgerðina á því formi sem landlæknir býr til og að í slíkri umsókn lýsi einstaklingur því yfir að honum sé ljóst í hverju aðgerð sé fólgin.
Jafnframt er lagt til að einungis læknar með sérfræðiviðurkenningu í almennum skurðlækningum, kvensjúkdómalækningum eða þvagfæraskurðlækningum megi framkvæma ófrjósemisaðgerðir og að einungis megi framkvæma ófrjósemisaðgerðir á heilbrigðisstofnunum eða starfsstofum lækna sem landlæknir hefur eftirlit með.
Nefnd lagði til að lækka lágmarksaldur niður í 18 ára
Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að tilurð þess hafi verið að heilbrigðisráðherra skipaði í mars 2016 nefnd sem ætlað var að vinna að heildarendurskoðun á lögum um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir og um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir. Í nefndina voru skipuð Sóley S. Bender formaður, sérfræðingur í kynheilbrigði og prófessor við Háskóla Íslands, Guðrún Ögmundsdóttir, félagsráðgjafi, cand.com. og tengiliður vistheimila í innanríkisráðuneytinu, og Jens A. Guðmundsson, sérfræðingur í fæðingar- og kvensjúkdómalækningum og dósent við Háskóla Íslands. Starfsmaður nefndarinnar var Þórunn Oddný Steinsdóttir, lögfræðingur í velferðarráðuneytinu.
Nefndin skilaði skýrslu sinni til heilbrigðisráðherra í nóvember 2016 þar sem meðal annars var lagt til að sett yrðu þrenn ný lög í stað eldri laga, það er lög um fræðslu og ráðgjöf varðandi kynheilbrigði, lög um þungunarrof og lög um ófrjósemisaðgerðir.
Í skýrslunni leggur nefndin til að lækka lágmarksaldur umsækjanda um ófrjósemisaðgerð niður í 18 ára í samræmi við ákvæði lögræðislaga, einungis verði heimilt að framkvæma ófrjósemisaðgerðir á börnum yngri en 18 ára af læknisfræðilegum ástæðum, ef lífi eða heilsu stúlku væri stefnt í hættu með þungun eða fæðingu eða ef einsýnt væri að barn viðkomandi yrði alvarlega vanskapað og/eða lífshættulega veik sem og að afmá skuli alla mismunun í lögunum gagnvart fötluðum einstaklingum. Tillögur nefndarinnar voru lagðar til grundvallar við gerð frumvarpsins.
Þungunarrof og ófrjósemisaðgerðir mjög óskyldar aðgerðir
Með frumvarpinu er, eins og áður segir, lagt til að fjallað verði um ófrjósemisaðgerðir í sérlögum. Í lögum nr. 25/1975 er fjallað um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir, um þungunarrof og ófrjósemisaðgerðir. Taldi nefndin að þungunarrof og ófrjósemisaðgerðir væru mjög óskyldar aðgerðir sem ekki stæðu rök til að fjallað væri um í sömu lögunum. Í sögulegu samhengi voru rökin fyrir því að fjalla um þungunarrof og ófrjósemisaðgerðir í sömu lögunum þau að í lögum nr. 38/1935 um leiðbeiningar fyrir konur um varnir gegn því að verða barnshafandi og um fóstureyðingar voru veittar takmarkaðar heimildir til þungunarrofs í tilteknum aðstæðum og byggðu þær þröngu heimildir til þungunarrofs af félagslegum ástæðum meðal annars á því að kona hefði átt mörg börn með stuttu millibili. Einnig voru í því samhengi veittar heimildir til að gera konur ófrjóar af sömu ástæðum.
„Eftir tilkomu þeirra getnaðarvarna sem nú eru fáanlegar koma aðstæður sem þessar sjaldan upp og því ekki talin ástæða til að fjalla um heimildirnar í sömu lögum. Einnig hafa heimildirnar breyst frá því sem áður var og þykir því enn meiri ástæða til að hafa löggjöfina aðskilda. Sama er að segja um ákvæði um ráðgjöf og fræðslu varðandi kynlíf og barneignir. Ekki þótt nefndinni því rétt að fjalla um slíkt í sömu löggjöf og um ófrjósemisaðgerðir. Er þetta í samræmi við löggjöf á hinum Norðurlöndunum,“ segir í greinargerðinni.
Hundruð ófrjósemisaðgerðir framkvæmdar á ári
Í svari heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Páli Vali Björnssyni um ófrjósemisaðgerðir frá því í nóvember 2015 kemur fram að á árunum 1981 til 2014 hafi ófrjósemisaðgerðir verið á bilinu 461 til 775 á ári. Flestar aðgerðir hafi verið gerðar á árunum 1996 til 2000 eða yfir 700 aðgerðir hvert ár.
Jafnfram segir að umtalsverð breyting hafi orðið á þessum árum á hlutfalli aðgerða eftir kyni en árið 1981 og fram til ársins 1988 hafi meiri hluti ófrjósemisaðgerða verið gerðar á konum en eftir árið 1988 hafi karlmenn verið í meirihluta. Í svarinu kemur einnig fram að langflestar aðgerðir sem framkvæmdar eru séu byggðar á heimild í gildandi lögum en á árunum 1981 til 2014 hafi 52 ófrjósemisaðgerðir verið framkvæmdar og af þessum 52 einstaklingum hafi 41 verið konur og 11 karlar.
„Af þessu er ljóst að mikill meirihluti þeirra einstaklinga sem undirgangast ófrjósemisaðgerðir af læknisfræðilegum ástæðum, félagslegum ástæðum eða ástæðum sem rekja má til fötlunar eða afkomanda viðkomandi einstaklings eru konur. Á árunum 2014 til 2017 voru ófrjósemisaðgerðir 634 til 638 talsins á ári og af þeim voru aðgerðir sem byggðu á heimild í II. lið 18. gr. tvær árið 2014 og báðar framkvæmdar á konum og fjórar árið 2017, tvær konur og tveir karlar,“ segir greinargerðinni.