Stýrivaxtahækkun Seðlabankans í gær hafa vakið furðu og verið harðlega gagnrýnd af aðilum vinnumarkaðarins. Í yfirlýsingu miðstjórnar ASÍ í gær segir að hún muni ekki auðvelda að sátt náist í komandi kjaraviðræðum og framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins sagði að hún hefði ekki jákvæð áhrif á viðræðurnar. Frá þessu er greint í Morgunblaðinu í dag.
Peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað að hækka vexti bankans um 0,25 prósentustig en í yfirlýsingu nefndarinnar sagði að aukin verðbólga og hærri verðbólguvæntingar hefðu lækkað raunvexti Seðlabankans umfram það sem æskilegt væri.
Óánægja frá báðum hliðum
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir hækkanirnar vera kaldar kveðjur inn í kjaraviðræður vetrarins. Kröfur VR hafa m.a. verið að vextir lækki og böndum verði komið á verðtrygginguna. „Þetta er algjörlega á skjön við þær leiðir sem við viljum fara og er mjög eldfimt útspil inn í mjög viðkvæmt ástand á vinnumarkaðinum. Þetta sýnir líka og undirstrikar að það þarf að fara í algjöra og gagngera endurskoðun á peningastefnu Seðlabankans og þeim sem henni stjórna. Þetta eru ískaldar kveðjur og mikil vonbrigði,“ sagði Ragnar Þór í samtali við Morgunblaðið.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdarstjóri Samtaka atvinnulífsins, segir hækkun vaxta ótímabæra: „Við hefðum kosið að Seðlabankinn hefði haldið stýrivöxtum óbreyttum en verið með í staðinn sterk varnaðarorð varðandi komandi kjarasamninga og ekki síður varðandi þróunina á vinnumarkaði“.
Halldór telur hækkunina ekki hafa jákvæð áhrif á komandi Kjaraviðræður: „Seðlabankinn segist vera að bregðast við hækkandi verðbólguvæntingum en gerir of lítið úr óvissu á vinnumarkaði. Það er einnig að renna upp fyrir sífellt fleiri Íslendingum að hagkerfið er að kólna hratt. Benda má á nýlegar sviptingar í flugheiminum. Seðlabankinn lítur hins vegar í baksýnisspegilinn og er að bregðast við meiri hagvexti á fyrri hluta ársins en reiknað var með,“ segir Halldór í samtali við Morgunblaðið.
Líklegt að fleiri vaxtahækkanir fylgi
Aðalhagfræðingur Kviku fjárfestingabanka, Kristrún Mjöll Frostadóttir, segir ekki ólíklegt að fleiri vaxtahækkanir fylgi í kjölfarið á vaxtahækkun Seðlabankans í gær. Kristrún segir það hafa komið á óvart að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands skuli hafa hækkað stýrivexti bankans í stað þess að hinkra og sjá hvort verðbólguvæntingar færu að gefa sig. Frá þessu er greint í Markaðinum, fylgiriti Fréttablaðsins, í dag.
Seðlabankinn hefur nýverið létt á innflæðishöftunum sem gæti stutt við krónuna og þar með ýtt væntingunum aðeins niður á við. „Á móti kemur að bankinn er ef til vill að falla á tíma með vaxtahækkanir þar sem verðbólguhorfur fara nú hratt versnandi,“ segir hún í samtali við Markaðinn.
„Ein af forsendunum fyrir því var minnkandi vaxtamunur og því er áhugavert að bankinn stígi nú strax það skref að hækka vexti. Það mætti þó segja að bankinn sé að einhverju leyti á eftir kúrfunni þegar kemur að vaxtahækkunum. Raunvaxtastig er orðið lágt og fer lækkandi með aukinni verðbólgu, auk þess sem spennan í hagkerfinu mælist meiri en þeir upprunalega héldu. Bankinn á að einhverju leyti að vera framsýnn og hafa þegar brugðist við því að verðbólgan sé að fara upp í rúmlega þrjú prósent í þessum mánuði,“ nefnir Kristrún
Aðspurð segir Kristrún ekki ólíklegt að fleiri vaxtahækkanir fylgi í kjölfarið, hvort sem það gerist í næsta mánuði eða eftir áramót. „Markaðurinn er svartsýnn sem sýnir sig í því að hann hefur þegar verðlagt rúmlega hundrað punkta hækkun á vöxtum á næsta eina og hálfa árinu.“