Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir að það horfi til betri vegar á spítalanum nú eftir töluvert mikla uppbyggingu, jafnt á innra sem ytra starfi og umgjörð, á síðustu fimm árum. Eftir mikla andstöðu við uppbyggingu við Hringbraut, oft „óþarflega heiftúðuga“, þá hafi tekist að blása lífi í hana.
Í pistli sem hann skrifar á vef spítalans segir hann að mörg krefjandi verkefni hafi verið unnin á undanförnum árum. „Það er hollt að fara yfir þær áskoranir sem blöstu við okkur haustið 2013 þegar ég tók við sem forstjóri. Þar stóðum við ef svo má segja í rústum hrunsins. Spítalinn var kominn að fótum fram í kjölfar fjársveltis og þeirrar ofuráherslu á rekstur sem við vorum neydd í, að talverður marki á kostnað mannauðsins. Þetta var hálfdapurt haust; rekstrarfé afar takmarkað, Hringbrautarverkefnið stöðugt bitbein og augljóst að framundan var nokkuð torsóttur vegur. Það var líka augljóst að umtalsvert vantraust var til stjórnenda spítalans,“ segir Páll.
Hann segir að mikil vinna sé nú framundan við að innleiða jafnlaunavottun og vonandi ná þar fram markmiðum að bæta kjör þeirra stétta sem þurfi á því að halda. „Við beinum nú sjónum sérstaklega að þörfum vaktavinnufólks í hjúkrun. t.d. með Heklu-verkefninu, þar er á ferðinni ný hugsun í vinnutíma og umbun og hefur verið vel tekið. Framundan er sömuleiðis mikil vinna vegna jafnlaunavottunar sem allir þurfa að koma að. Hér sé ég tækifæri til að bæta kjör þeirra stétta sem við árum saman höfum talað um að sitji hjá garði enda mun samræmt starfsmat færa á samningaborðið efnisleg tilefni til þess. Ég bind sömuleiðis vonir við innleiðingu Samskiptasáttmálans. Þar er rakið tækifæri til að gera vinnustaðinn okkar betri og spítalann öruggari fyrir alla. Þessi sáttmáli varð ekki til af sjálfu sér, hann er afrakstur vinnu um 700 starfsmanna sem nú ásamt stjórnendum og öðru starfsfólki innleiða þetta mikilvæga verkefni.“
Páll segir að tekist hafi að blása lífi í uppbygginguna við Hringbraut, eftir mikla andstöðu sem á köflum hafi verið óþarflega heiftúðug. „Sem betur fer tókst að virkja öfluga bandamenn innan og utan spítalans, almenning jafnt sem kröftuga einstaklinga úr nær öllum stjórnmálaflokkum, sem skilja kall tímans í þessu mikilvæga verkefni. Uppbyggingin við Hringbraut er komin á fullt skrið og við horfum til betri tíma í þessu tilliti, þó við gerum svo sannarlega ráð fyrir að næstu ár verði annasöm og á stundum torfær á framkvæmdatímanum. Þegar ég horfi yfir þessi síðustu ár og skima til þeirra næstu verður það mér æ ljósara að eini fastinn í spítalarekstri er breytileikinn. Þjónusta við sjúklinga tekur sífelldum breytingum, áskoranirnar eru endalausar og stöðug þróun á sér stað á öllum vígstöðvum. Árangur síðustu ára er samstarfi okkar allra að þakka. Verkefni næstu ára eru krefjandi en af reynslu síðustu ára hef ég lært að okkur eru allir vegir færir,“ segir Páll.