Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar og fulltrúi í fjárlaganefnd Alþingis, gagnrýnir aðhaldsaðgerðir sem birtast í fjárlagafrumvarpinu fyrir aðra umræðu á Alþingi, en í viðtali við RÚV í kvöld sagði Willum Þór Þórsson, formaður nefndarinnar, það væri verið að bregðast við kólnun í hagkerfinu með aðhaldsaðgerðum. „Verðbólgan er að láta á sér kræla og það er stór hluti frumvarpsins sem er í launum og verðbótum og það þarf að taka tillit til þess sem hefur áhrif á fjölmargar stærðir og svo þarf að gera almennar ráðstafanir til að mæta þeim útgjaldaauka og svo er einkaneyslan er að dragast saman á næsta ári og það er högg í virðisaukaskattstekjur,“ sagði Willum í samtali við RÚV í kvöld.
Ágúst Ólafur segir á Facebook síðu sinni, að í frumvarpi birtist aðhaldsaðgerðir sem hann lýsir sem „alveg ótrúlegum“.
Hann segir meðal annars að öryrkjar eigi að fá 1,1 milljarði minna en áður var gert ráð fyrir, samgöngur fái 500 milljóna niðurskurð, og hvergi sé borgarlína sjáanleg, og þá sé einnig gert ráð fyrir mun minna fjármagni í marga aðra liði, en fyrra frumvarp gerði ráð fyrir.
„1. Öryrkjar fæ að meira að segja 1.100 mkr. lækkun frá því sem fjárlagafrumvarpið gerði ráð fyrir í haust en það var ekki beysið til að byrja með. Verður það að teljast vera köld tuska í andlit öryrkja að fá lækkun á milli umræðna á fjárlagafrumvarpinu. Enn er því afnám kr. á móti kr. ófjármagnað. Og nú eru skilaboðin að öryrkjar eigi að bera ábyrgð á kólnun hagkerfisins.
2. Húsnæðisstuðningur fær 91 mkr. niðurskurð hjá meirihlutanum þrátt fyrir litla sem enga viðbót þegar frumvarpið var lagt fram og ákall verkalýðshreyfingarinnar um að húsnæðismálin séu eitt stærsta baráttumál þeirra.
3. Samgöngur fá um 550 mkr. niðurskurð frá því sem til stóð í fjárlagafrumvarpinu þegar það var lagt fram í haust og þrátt fyrir vanfjármagnaða samgönguáætlun. Engin Borgarlína á dagskrá hér.
4. Framhaldaskólastigið fær til viðbótar 80 mkr. niðurskurð þrátt fyrir að fá lækkun á milli ára þegar frumvarpið var lagt fram,“ segir Ágúst Ólafur meðal annars á Facebook síðu sinni.