Gengi krónunnar gagnvart helstu viðskiptamyntum hélt áfram að veikjast á markaði í dag. Evra kostar nú 141 krónu, Bandaríkjadalur tæplega 125 krónur og breskt pund 161 krónu.
Þetta er umtalsverð breyting á skömmum tíma, en fyrir innan við hálfu ári kostaði evran 120 krónur og Bandaríkjadalur um 100 krónur.
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað í síðustu viku að hækka meginvexti bankans úr 4,25 prósent í 4,5 prósent, og var það meðal annars vegna væntinga um meiri verðbólgu. Hún mælist nú 2,8 prósent, en spár gera ráð fyrir að hún hækki nokkuð á næstu misserum og verði töluvert yfir markmiði, á bilinu 3,5 til 5 prósent, á næsta ári.
Meðal ástæðna fyrir auknum verðbólguþrýstingi er veiking krónunnar, sem ýtir undir hækkandi verðlag, einkum á innfluttum vörum og innfluttri þjónustu.
„Horfur eru á að verðbólga haldi áfram að aukast og verði nokkuð yfir markmiði á næsta ári. Þá hafa verðbólguvæntingar hækkað undanfarið og eru nú yfir markmiði á alla mælikvarða. Verðbólguhorfur hafa því versnað en á móti vega horfur á að hraðar dragi úr vexti efnahagsumsvifa en áður var talið. Aukin verðbólga og hærri verðbólguvæntingar síðustu mánuði hafa lækkað raunvexti Seðlabankans umfram það sem æskilegt er í ljósi núverandi efnahagsástands og -horfa. Því er nauðsynlegt að hækka vexti bankans nú.
Peningastefnan mun á næstunni ráðast af samspili minni spennu í þjóðarbúskapnum, launaákvarðana og þróunar verðbólgu og verðbólguvæntinga.
Peningastefnunefnd ítrekar að hún hefur bæði vilja og þau tæki sem þarf til að halda verðbólgu við markmið til lengri tíma litið. Haldi verðbólguvæntingar áfram að hækka og festist í sessi umfram markmið mun það kalla á harðara taumhald peningastefnunnar. Aðrar ákvarðanir, einkum á vinnumarkaði og í ríkisfjármálum, hafa þá áhrif á hversu mikill fórnarkostnaður verður í lægra atvinnustigi,“ segir meðal annars í yfirlýsingu Peningastefnunefndar, vegna vaxtahækkunarinnar.