Líknardrápum hefur fjölgað um tæp 20 prósent á tveimur árum í Hollandi. Líknardráp var lögleitt árið 2002 í Hollandi en þar í landi er beint líknardráp leyfilegt, þar sem læknir gefur banvæna lyfjagjöf í æð, en aðstoð við sjálfsvíg er þar einnig leyfileg. Árið 2017 fengu 4,4 prósent þeirra sem létust í Hollandi aðstoð við að deyja eða 6585 einstaklingar. Frá þessu er greint í Læknablaðinu.
„Tilfellunum hefur fjölgað í gegnum árin en nú teljum við að jafnvægi sé að nást,“ segir Antina de Jong, doktor í siðfræði, en hún talaði fyrir konunglegu hollensku læknasamtökunum á ráðstefnu læknafélags Íslands og Alþjóðalæknafélagsins um lífsiðfræði, sem haldin var í Hörpu í október.
Samkvæmt Antinu de Jong mega læknar í Hollandi aðstoða við andlát en reglurnar eru strangar. Grundvallarreglurnar eru að það liggi fyrir frjáls og vel íhuguð beiðni sjúklings, til staðar séu óbærilegar þjáningar án möguleika á bættri líðan. Að sjúklingar séu upplýstir um stöðu sína og líkur á bata og að sannarlega sé engin önnur skynsamleg lausn í boði. Þá þarf samráð við annan lækni og framkvæma þarf líknardráp með aðgát segir í umfjöllun Læknablaðsins.
Í Hollandi eiga sjúklingar ekki rétt á líknardrápi og lækni ber aldrei skylda til að aðstoða við líknardráp. Hann má hins vegar aðstoða ef hann er sannfærður um að sjúklingur uppfyllir skilyrði reglna og telur ekki aðra lausn draga úr eða lina þjáningar sjúklingsins. Af þessum ríflega 6000 andlátum í fyrra eru fimm þeirra í nánari skoðun opinbers saksaksóknara, samkvæmt Jong eru það mál þar sem ekki var farið eftir grundvallarreglum.
Umræða um líknardráp á Íslandi
Á Alþingi hefur þingsályktunartillaga um dánaraðstoð verið lögð fram þrívegis. Nú síðast í lok september af sjö þingmönnum úr öllum þingflokkunum nema Flokk fólksins. Tillagan var rædd á þingi og fór til umfjöllunar í velferðarnefnd.
Í þingsályktunartillögunni er lagt til að heilbrigðisráðherra yrði falið að taka saman upplýsingar um þróun lagaramma þar sem dánaraðstoð er leyfð. Einnig er lagt til að opinber umræða í nágrannalöndum sé skoðuð. Ásamt því yrði gerð skoðanakönnun meðal heilbrigðisstarfsmanna um afstöðu þeirra og hvort starfsmenn telji dánaraðstoð vera réttlætanlega í ákveðnum tilfellum og hvort þeir væru tilbúnir að verða við slíkri ósk að uppfylltum skilyrðum og að því gefnu að það samræmist íslenskum lögum. Lagt er til að skýrsla um málið verið skilað fyrir lok febrúar 2019.
75 prósent Íslendinga hlynnt dánaraðstoð
Í nóvember 2015 lét Siðmennt gera könnun á lífsskoðunum og trú Íslendinga þar sem fram kom að 75 prósent aðspurðar voru mjög eða frekar hlynntir því að einstaklingur geti fengið aðstoð ið að binda enda á líf sitt ef hann er haldinn ólæknandi sjúkdómi. Átján prósent voru hvorki né en 7,1 prósent mjög eða frekar andvíg.
Árið 2010 var gerð könnun um afstöðu heilbrigðisstarfsfólks til siðfræðilegra álitamála um takmörkun meðferðar við lífslok, var gerð var niðurstaðan sú að líknardráp þótti réttlætanlegt hjá 18 prósent lækna og 20 prósent hjúkrunarfræðinga en aðeins 3 prósent vildu verða við slíkri ósk. Frá þessu er greint í greinargerð þingsályktunartillögunnar.Í greinargerðinni segir að umræður um dánaraðstoð hafi sprottið upp hér á landi í meira mæli eftir að stofnuð voru samtökin Lífsvirðing, félag um dánaraðstoð og í kjölfar skoðanakönnunar Siðmenntar.„Flutningsmenn þessarar tillögu telja að forsenda þess að umræðan geti þroskast og verið málefnaleg sé að fyrir liggi upplýsingar um stöðu þessara mála í öðrum löndum, svo og um afstöðu heilbrigðisstarfsfólks. Mikilvægt er að stjórnvöld safni þeim upplýsingum saman og setji fram á skýran og hlutlausan hátt. Þingsályktunartillagan felur ekki í sér afstöðu til þess hvort ástæða sé til að breyta lögum hérlendis. Tilgangurinn er að treysta grundvöll nauðsynlegrar umræðu um viðkvæmt mál.“
Landlækni hugnast ekki að dánaraðstoð sé til umræðu á þingi.
Alls hefur verið skilað inn tuttugu umsögnum, álitum og athugasemdum um þingsályktunartillöguna. Meðal þeirra sem skiluðu inn umsögn var Embætti landlæknis, Alþýðusamband Íslands, Siðmennt, Kaþólsku kirkjan á Íslandi og Læknafélag Íslands.
Embætti landlæknis mælti eindregið gegn þingsályktunartillögunni í sinni umsögn og sagði ekki væri ráð að færa umræðuna um dánaraðstoð inn á alþingi Íslendinga frekar ætti að ræða málefnið í samnorrænum vettvangi utan þing og án þrýstinga frá stjórnmálum.
Umsagnir Kaþólsku kirkjunnar á Ísland og Rétttrúnaðarkirkjunnar er á þá leið að líknardráp sé glæpsamlegt athæfi. „Fyrst og fremst viljum við segja að það að drepa einhvern eða að hjálpa honum að fyrirfara sér er hvorki euthanasia (dauði með gleði) né dánaraðstoð (það að hjálpa einhverjum sem er að deyja), heldur glæpsamlegt aðgerð. Þá getum við á engan hátt samþykkt slíka gjörninga vegna þess að þeir brjóta gegn náttúrulegum lögum og eru einnig andstæðir meginreglum kristinnar trúar.“
Í umsögn Lífsvirðingar, félags um dánaraðstoð, hvetur félagið Alþingi eindregið til að samþykkja þingsályktunartillöguna. „Víðtæk, málefnaleg og yfirveguð umræða almennings og fagfólks er mikilvæg og lykillinn að gagnkvæmum skilningi.“ segir í umsögninni. Lífsvirðing tekur einnig undir með flutningsmönnum þingsályktunartillögunnar að mikilvægt er að kanna afstöðu heilbrigðisstarfsmanna til dánaraðstoðar. Síðasta rannsóknin er frá 2010 og samkvæmt félaginu hefur umræðan í hinum vestrænum heimi þróast mikið síðan þá. „Miklar framfarir í læknavísindum hafa þær afleiðingar að hægt er að halda fólki lengur á lífi en áður. Tíðarandinn hefur einnig breyst og aukin áhersla er á sjálfræði einstaklingsins og þátttöku í ákvörðunum.“