Orka náttúrunnar og gagnaversfyrirtækið Etix Everywhere Borealis hafa gert með sér samning um rafmagnsviðskipti vegna uppbyggingar á gagnaverum á Blönduósi og á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ON.
Þetta er annað gagnaverið sem Orka náttúrunnar semur við og með samningnum við ON hefur fyrirtækið tryggt sér yfir 10 megavött sem eru að losna úr langtímasamningum.
Etix Everywhere Borealis hefur rekið gagnaver hér á landi um hríð og samkvæmt tilkynningunni vex það hratt en það er í blandaðri eigu íslenskra og erlendra aðila. Fyrirtækið opnaði nýlega gagnaver við Blönduós og er frekari uppbygging fyrirhuguð þar og á Reykjanesi. Í kjölfar aðkomu alþjóðlega gagnaversins Etix Everywhere Borealis hefur uppbygging aukist til muna, segir í tilkynningunni.