„Krónan er bara valdatæki. Hún er valdatæki sérhagsmunaafla og almenningur verður að fara að sjá í gegnum þetta.“ Þetta segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar.
Hún er gestur Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, ásamt Loga Einarssyni formanni Samfylkingarinnar í sjónvarpsþættinum 21 sem frumsýndur verður á Hringbraut í kvöld. Þar ræða þau breytingar á fjárlögum, umræðu um þriðja orkupakkann, kjaramál, gjaldmiðilinn og breytta samsetningu stjórnmálanna, svo fátt eitt sé nefnt. Hægt er að sjá stiklu úr þættinum hér að neðan.
Aðspurður hvað valdi því að þeir flokkar sem hafa aðild að Evrópusambandinu og upptöku annars gjaldmiðils á stefnuskrá sinni njóti ekki meira fylgis, þrátt fyrir að þeir telji krónuna svona meingallaða, segir Logi að það sé ekki gott að segja til um. „En þessi margtuggða klisja um „Groundhog Day“ er auðvitað að birtast okkur núna. Gátu menn séð þetta fyrir sér einhvern veginn öðruvísi að þegar það færi að kólna í efnahagslífinu að gengið lækki, að vextir hækki, að verðbólga fari af stað, að það verði minnkandi spenna á vinnumarkaði, meira atvinnuleysi? Þetta var fyrirséð.“