Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir að stjórnvöld og sveitarfélög verði að koma að því að styrkja stöðu húsnæðismála með því að útvega fleiri lóðir til að byggja og styðja við ungt fólk sem er að fara út á húsnæðismarkað.
Í viðtali við RÚV í kvöld sagði hún að aðgerða væri þörf, og óhjákvæmilegt að stjórnvöld kæmu að málum. Hún sagði vera uppi „krísu“ sem þyrfti að leysa úr, og þar þyrfti að horfa til þess að byggja meira og aðstoða fólk. „Fólk sem er á leigumarkaði er sennilega það fólk sem býr við verstu kjörin í dag. Þetta er fólkið á lægstu laununum, greiðir mest í íbúðarkostnað og leigan hefur hækkað töluvert umfram það sem kaupmáttur hefur aukist eða launahækkanir,“ sagði Drífa í viðtali við RÚV.
Hún beindi einnig spjótum sínum að sveitarfélögunum, enda er lóðaúthlutun og skipulag nýrrar byggðar á hendi þeirra. „Ríkið þarf að verja leigjendur gegn taktvissum hækkunum á hverju einasta ári frá leigufélögum og leigusölum,“ sagði Drífa.
Í pistli á vef ASÍ í dag, sagði hún það vonbrigði að stjórnvöld virtust ekki ætla að vera með nein útspil inn í kjaraviðræður, sé mið tekið af fjárlögum 2019. Hún sagði stjórnvöld vera með þessu að svíkja gefin loforð.
Stettarfélögin hafa í kröfugerð sinni, fyrir kjaraviðræður, lagt áherslu á húsnæðismálin, og vilja að meira sé gert til að tryggja rétt fólks á fasteignamarkaði.