Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, hefur aldrei haft trú á því að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur muni sitja út kjörtímabilið. „Ég[...]hef enga trú á því að Vinstri græn treysti sér í að fara í kosningar, og starfa í þessari ríkisstjórn fram á síðustu stundu. Vegna þess að þau eru að verja málstað sem ég trúi ekki að þau trúi á. Ég trúi ekki á það að þau ætli að láta allar byrðarnar í lægðinni leggjast á veikustu hópanna. Ef að það er þá er þessi flokkur minna virði en ég hélt að hann væri.“
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, telur hins vegar að ríkisstjórnin muni sitja ansi lengi og að Framsóknarflokkurinn muni gera allt sem hann getur til að halda henni saman. Það yrði líka mikil niðurlæging fyrir Sjálfstæðisflokkinn að enn ein ríkisstjórnin sem hann situr í næði ekki að sitja út heilt kjörtímabil, líkt og raunin hefur verið með síðustu þrjár stjórnir sem flokkurinn hefur átt aðild að. „Ég held að þessi ríkisstjórn muni sitja lengur og þreyja þorrann eins lengi og hún getur.“
Þetta kom fram í viðtali Þórðar Snæs Júlíussonar, ritstjóra Kjarnans, við Loga og Þorgerði í þættinum 21 á Hringbraut sem sýndur var síðasta miðvikudag. Hægt er að sjá stiklu úr þættinum, þar sem þau ræða stjórnmálaástandið, hér að neðan.
Í þættinum er einnig rætt töluvert um mögulega blokkamyndun innan íslenskra stjórnmála, í ljósi þess að íslenskt stjórnmálaástand hefur umbreyst á örfáum árum. Nú eru til að mynda átta flokkar á þingi og ómögulegt að mynda sterka tveggja flokka stjórn, sem var normið í íslenskum stjórnmálum áratugum saman.
Logi segir að sér hafi lengi þótt ákjósanleg sú tilhugsun að flokkar færu meðvitaðri og upplýstari inn í kosningar og gæfu kjósendum sínum skýrari skilaboð um hvað þeir ætli að gera. „Ég tala um Vinstri græn – þó ég gagnrýni þau í þessari ríkisstjórn – sem mína pólitísku nágranna. Þau eru það vissulega í mörgum málum. Og þau eru miklu náttúrulegri samstarfsaðili Samfylkingarinnar heldur en Sjálfstæðisflokksins. Ég held að þessi spenna sem er að hlaðast upp, og hún mun birtast í þriðja orkupakkanum, hún mun birtast í þungungarrofsmálinu, kosningamálinu, stjórnarskránni, hún mun á endanum leiða til þess að þetta springur í tætlur og þá fylkja sér auðvitað saman þeir sem eru náttúrulegir bandamenn og geta stjórnað án þess að vera að gera málamiðlanir um lægsta samnefnara.“
Logi segir í þættinum að hann telji að það sé miklu meiri áhugi innan Vinstri grænna, jafnvel innan þingliðs flokksins, að skoða gjaldmiðlamálin og velta fyrir sér hvort að Ísland eigi að taka upp nýjan gjaldmiðil. „Ég þykist vita það af samtölum við þingmenn.“
Þorgerður Katrín er ekki jafn viss og segist upplifa að Vinstri grænum líð ótrúlega vel í þessu ríkisstjórnarsamstarfi. „Það er allavega þannig að yfirhöndina í Vinstri grænum hefur núna gamli armurinn.“
Í lok þáttarins gerðu formennirnir með sér veðmál um hvort ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur myndi sitja út kjörtímabilið eða ekki. Þar lögðu þau undir góða rauðvínsflösku og nýja ríkisstjórn.
Hægt er að sjá þáttinn í heild sinni hér að neðan: