Heildareignir ríkustu fimm prósent þjóðarinnar uxu um 274 milljarða króna í fyrra og námu alls 1.852 milljörðum króna. Það er mesta eignaaukning í krónum talið hjá þeim hópi á einu ári í að minnsta kosti 20 ár. Þetta má lesa út úr svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn Loga Einarssonar, formanns Samfylkingarinnar, um eignir og tekjur landsmanna á árinu 2017. Vert er að taka fram að um heildareignir er að ræða, ekki eigið fé þegar búið er að draga skuldir frá.
Alls áttu ríkustu fimm prósent þjóðarinnar, um 11.450 fjölskyldur, 32 prósent af öllum eignum á Íslandi í lok síðasta árs. Frá lokum árs 2010 hafa eignir þessa hóps aukist um 718 milljarða króna.
Þangað til í fyrra hafði mesta aukningin á eignum fimm prósent ríkustu Íslendinganna verið á árinu 2007, þegar fyrirhrunsgóðærið náði hámarki. Þá jukust eignir hópsins um 250 milljarða króna á einu ári.
Þegar þrengri hópur, nánar tiltekið ríkasta eitt prósent landsmanna, er skoðaður þá stendur eignaaukningarmetið frá 2007 en óhaggað. Það ár jukust eignir þess hóps um 141 milljarð króna. Í fyrra jukust eignir ríkasta eins prósents landsmanna um 105 milljarða króna og stóðu í 759 milljörðum króna í árslok. Alls tilheyra 2.290 fjölskyldur þessum hópi.
Vert er að taka fram að færri fjölskyldur tilheyrðu hverjum hlutfallshópi á árum áður, enda hefur landsmönnum fjölgað hratt á undanförnum árum. Því er ekki að öllu leyti um sama fólkið að ræða sem tilheyrir efstu lögunum hverju sinni.
Mjög hátt eiginfjárhlutfall
Kjarninn hefur áður greint frá því að uppgangurinn í íslensku efnahagslífi hafi skilað því að eigið fé landsmanna, eignir þeirra þegar búið er að draga skuldir frá, hefur farið úr því að vera 1.565 milljarðar króna í lok árs 2010 í að vera 4.103 milljarðar króna um síðustu áramót. Því hafa orðið til 2.538 nýir milljarðar króna í hreinni eign á umræddu tímabili. Þeir hafa skipst misjafnlega niður á landsmenn.
Á síðasta ári áttu ríkustu fimm prósent landsmanna 1.647 milljarða króna, sem þýðir að eiginfjárhlutfall þeirra var um 89 prósent. Þ.e. einungis rétt rúmlega tíund af eignum þeirra var skuldsett.
Auður ríkasta eins prósents landsmanna, alls 2.290 fjölskyldna, hefur aukist um 270 milljarða króna frá árslokum 2010, sem þýðir að tæplega ellefu prósent nýs auðs hefur farið til þess hluta landsmanna. Alls átti þessi hópur 719 milljarða króna í lok árs 2017 og eiginfjárhlutfall hópsins var um 95 prósent.
Þegar enn minni hópur, 0,1 prósent ríkustu fjölskyldur landsins er skoðaður kemur í ljós að hann á tæplega 237 milljarða króna í hreinni eign. Það þýðir að eiginfjárhlutfall hans er rúmlega 98 prósent.
Rétt er að taka fram að hlutabréf eru talin á nafnvirði í þessum gögnum og fasteignir eru taldar á fasteignamatsverði. Markaðsvirði beggja, sem eru á meðal helstu eignarflokka á Íslandi, er mun hærra en það virði.