Íslendingar henda fjórfalt meira rusli í klósettið en Svíar

Alþjóðlegi klósettdagurinn er í dag, 19. nóvember, og er þema ársins 2018 salernislausnir í anda náttúrunnar, samkvæmt Sameinuðu þjóðunum.

Klósett/blautþurrkur
Auglýsing

Ekki er nóg að eiga gott frá­veitu­kerfi, það þarf líka að kunna að umgang­ast það. Aðskota­hlutir eins og blaut­þurrk­ur, dömu­bindi, mat­ar­olía og feiti geta myndað stíflur í lögn­um, dæli­stöðvum og skólp­hreinsi­stöðv­um, sem geta leitt til þess að óhreinsað skólp flæðir upp úr kerf­inu með til­heyr­andi óþæg­ind­um. Talið er að Íslend­ingar hendi fjór­falt meira rusli í kló­settið en Sví­ar. Þetta kemur fram á Vís­inda­vef Háskóla Íslands

Alþjóða­heil­brigð­is­mála­stofn­unin (WHO) og UNICEF telja að 4,5 millj­arður manna búi án öruggs kló­setts og 892 millj­ónir gangi örna sinna á víða­vang­i. 

Til að vekja athygli á þessum vanda, og styðja við sjötta sjálf­bærn­is­mark­mið­ið, hafa Sam­ein­uðu þjóð­irnar skil­greint 19. nóv­em­ber sem alþjóð­lega kló­sett­dag­inn. Þema árs­ins 2018 eru sal­ern­is­lausnir í anda nátt­úr­unn­ar. Með því er átt við þurrkló­sett þar sem hægt er að vinna saur­inn í áburð á tún og nota vot­lendi sem nátt­úru­lega hreinsun á vatni, segir á Vís­inda­vefn­um. 

Auglýsing

Þar kemur jafn­framt fram að áður en ákveðið var að reisa fyrstu frá­veit­una í Reykja­vík 1911 hafi fólk losað koppa og notað vatn í ræsi og skurði ofanjarð­ar. Læk­ur­inn, sem Lækj­ar­gata í miðbæ Reykja­víkur er nefnd eft­ir, hafi verið einn slík­ur. Læk­ur­inn hafi átt til að stífl­ast og þar sem hann tók líka við regn­vatni og afrennsli af göt­um, þá hafi komið fyrir að saur­blandað vatn flæddi yfir bakka hans alla leið yfir á Aust­ur­völl. Á þessum tíma hafi margir dáið úr vatns­bornun far­öldrum, eins og tauga­veiki.

Enski lækn­ir­inn John Snow, sem fæddur var árið 1813, var fyrstur til að bera kennsl á tengsl drep­sótta og óhreins drykkj­ar­vatns, sam­kvæmt Vís­inda­vefn­um. „Með því að skrá ferðir þeirra sem sýkt­ust af kól­eru í London 1854 komst hann að því að allir hefðu notað vatn úr sama vatns­brunn­inum á Breiða­stræti í Soho-hverf­inu. Þessi upp­götvun mark­aði upp­haf hrein­læt­is­bylt­ing­ar­innar sem gekk út á að leggja aðskild vatns- og frá­veitu­kerfi í hús eins og við þekkjum í hinum vest­ræna heimi í dag. Nú minn­ast menn John Snow og hans fram­lags með sam­tökum sem kennd eru við hann, John Snow Soci­ety.

Nú, rúmri einni og hálfri öld eftir upp­götvun John Snows, og rúmri öld eftir bygg­ingu fyrsta hol­ræsis á Íslandi, er langt því frá að allir í heim­inum njóti frá­veitu eins og við gerum á Ísland­i,“ segir á vefn­um. 

Frá­veitu­mál á Íslandi í ólestri

Kjarn­inn fjall­aði ítar­lega um frá­veitu­mál á síð­asta ári en sér­­fræð­ingar virð­­ast flestir vera sam­­mála um að frá­­veit­u­­málum og skólp­hreinsun sé ábóta­vant í mörgum sveit­­ar­­fé­lögum á Íslandi. Þrátt fyrir reglu­­gerðir og lög hvernig frá­­veit­u­­málum eigi að vera háttað er pottur brot­inn víða varð­andi þau mál­efni. Eitt brýn­asta mál­ið, tengt mengun vegna frá­­rennsl­is, er svo­­kallað örplast sem rennur með skólpi og frá­­veit­u­vatni út í sjó­inn óhindr­­að. Fleiri þættir hafa áhrif á mengun og mætti nefna aukna ferða­­mennsku, stór­iðju og ofan­vatns­­­meng­un.

Tryggvi Þórð­­ar­­son, vatna­vist­fræð­ingur hjá Umhverf­is­­stofn­un, sagði í sam­tali við Kjarn­ann að það væri fremur reglan en und­an­­tekn­ingin að þétt­býli á land­inu hefðu ekki upp­­­fyllt lög og reglu­­gerð um frá­­veitur og skóp þó að þau hefðu átt að vera búin að því í síð­­asta lagi árið 2005 en þá rann út síð­­­asti frest­­ur­inn.

Hann sagði að nauð­­syn­­legar fram­­kvæmdir væru dýrar og til dæmis væri hefð­bundið að veit­u­­kerfið væri ein­ungis tvö­­faldað um leið og verið væri að taka upp ein­hverja göt­una og end­­ur­nýja í henni. Hann taldi að miðað við þró­un­ina hingað til myndi lík­­­leg­­ast taka ein­hverja ára­tugi fyrir sveit­­ar­­fé­lögin að fram­­fylgja kröfum laga og reglu­­gerðar að fullu.

Kerfið við­kvæm­ast fyrir skólp­mengun

Að sögn Tryggva eru áhrif meng­unar af völdum skólps mis­­­jöfn eftir því hversu við­­kvæmur stað­­ur­inn í nátt­úr­unni sem skólpið er leitt út í er. Hann sagði að meng­unin færi líka eftir fjölda íbú­a­í­­gilda eða svoköll­uðum per­­són­u­ein­ingum sem geta verið tals­vert fleiri en íbú­­arn­­ir. Magn meng­un­­ar­efn­anna er metið út frá per­­són­u­ein­ingum en ein per­­són­u­ein­ing jafn­­­gildir því sem einn maður lætur frá sér á einum sól­­­ar­hring. Hann benti á að vegna atvinn­u­­rekstrar væri oft tvö til þrefalt meira af per­­són­u­ein­ingum en íbú­­um.

Einnig eru bakt­er­­íur í skólp­inu sem hafa ekki bein áhrif á vist­­kerfið en segja aðal­­­lega til um smit­hættu. Tryggvi sagði að kröfur væru um að saur­bakt­er­­íur þyrftu að vera undir ákveðnum mörkum í vatni eftir los­un. Kerfið væri við­­kvæm­­ast fyrir mengun af völdum nær­ing­­ar­efna, þ.e. áburð­­ar­efna eða líf­ræns efn­­is. Ein helsta meng­unin af völdum þess­­ara efna er skólp­­mengun og taldi hann að þörf væri á úrbótum í þeim mál­u­m.

Ferða­­mennska eykur álag á kerfið

Fleiri þættir spila inn í skólp­­mengun og einn þeirra er fjölgun ferða­­manna. Einn ferða­­maður sem dvelur á Íslandi er eins og einn íbúi eða ein per­­són­u­ein­ing; sama mengun kemur frá honum og venju­­legum íbúa. Tryggvi sagði að ferða­­mennskan yki álagið á stað­inn í nátt­úr­unni þar sem skólpið er leitt út í og á hreinsi­­stöðv­­­arn­­ar. Hann sagði að hreinsi­­stöðv­­­arnar næðu aldrei nema hluta af meng­un­inni, mis­­­mikið eftir því hvort um eins þreps, tveggja þrepa eða ítar­­legri hreinsun en tveggja þrepa er að ræða. Öll umframmengun sem hreinsi­­bún­­að­­ur­inn ræður ekki við slippi því í gegn og kæm­ist út í umhverf­ið.

Annar þáttur sem Tryggvi benti á í sam­­bandi við vanda með kerfið er vatns­­­notkun hjá almenn­ingi. „Ef ekki er hugsað um þetta og ef verið er að fara óspar­­lega með vatn og það notað í of miklu magni þá kostar það stærri leiðsl­­ur. Bæði vatns­­­leiðslur þar sem þarf að leiða vatnið inn í borg­ina og bæina og eins í lögn­unum fyrir frá­­rennsl­i,“ sagði hann. Kostn­aður væri gríð­­ar­­legur í stórum hreinsi­­stöðvum en sá kostn­aður mið­ist við vatns­­­magnið en ekki beint mengun vatns­­ins. Hann sagði að þannig ykist umfangið vegna auka­vatns á öllum bún­­aði bæði í lögnum og í hreinsi­­bún­­aði væri hann til stað­­ar.

Örplast fannst í neyslu­vatni Reyk­vík­­inga

Í frétt Kjarn­ans frá því í byrjun febr­­úar á þessu ári segir að í vatns­­­sýnum sem safnað var úr vatns­­veitu Veitna í Reykja­vík hafi komið í ljós að 0,2 til 0,4 plast­­agnir hafi fund­ist í hverjum lítra vatns. Sam­kvæmt til­kynn­ingu frá Veitum eru þetta mun betri nið­­ur­­stöður en birtar voru í erlendri skýrslu um örplast í neyslu­vatni sem var í fréttum hér á landi á síð­­asta ári. Sér­­fræð­ingur sem Kjarn­inn tal­aði við sagði að þrátt fyrir jákvæðar nið­­ur­­stöður þá bæri að taka þær alvar­­lega. Frek­­ari rann­­sókna væri þörf.

Örplast er heiti á plast­­ögnum sem eru minni en 5 milli­­­metrar að þver­­máli. Örplast getur ann­­ars vegar verið fram­­leitt örplast, sem til dæmis finnst í snyrt­i­vörum, eða örplast sem verður til við nið­­ur­brot, til að mynda úr dekkj­um, inn­­­kaupa­­pokum eða fatn­að­i.

Nið­­ur­­stöður mæl­inga Veitna sam­svara því að 1 til 2 slíkar agnir finn­ist í 5 lítrum vatns. Tekin voru stór sýni, eða 10 til 150 lítr­­ar­. Kom fram í fyrr­­nefndri erlendri skýrslu að 83 pró­­sent þeirra 159 sýna sem hún byggir á, og tekin voru víðs vegar í heim­in­um, inn­i­héldu að með­­al­tali tutt­ug­u­falt og allt að 400-falt magn plast­­agna miðað við það sem fannst í neyslu­vatni Reyk­vík­­inga.

Lifum ekki í ein­angr­uðum heimi

Hrönn Jör­unds­dótt­ir, sviðs­­stjóri og sér­­fræð­ingur hjá MAT­ÍS, sagði í sam­tali við Kjarn­ann að nauð­­syn­­legt væri að finna upp­­­sprettu örplasts, þ.e. hvaðan það komi. Hún sagði að þau hjá MATÍS væru að skoða þessi mál og að til stæði að birta skýrslu um örplast á Íslandi í náinni fram­­tíð.

Varð­andi nið­­ur­­stöður úr sýna­­töku Veitna þá sagði hún að það væri jákvætt að lítið örplast hafi greinst í sýn­unum en á hinn bóg­inn þá væri það áhyggju­efni að plast­­agnir hafi fund­ist yfir­­höf­uð. Þetta sýndi að örplast sé víðar en fólk geri sér grein fyr­­ir. „Það verður að taka þetta alvar­­lega, við erum ekki laus við þetta í okkar umhverfi frekar en aðr­ir,“ sagði hún og bætti því við að Íslend­ingar lifi ekki í ein­angr­uðum heimi og að þetta snerti okkur öll.

Rafbílasala heldur áfram að aukast
Hreinir rafmagnsbílar, tengiltvinnbílar og hybrid bílar voru 22 prósent af heildar fólksbílasölu fyrstu sex mánuði ársins. Ríkisstjórnin hefur sett sér það markmið að árið 2030 verði 100.000 skráðir rafbílar og önnur vistvæn ökutæki hér á landi.
Kjarninn 20. júlí 2019
Össur kaupir fyrirtæki í Detroit
Markaðsvirði Össurnar hefur aukist mikið að undanförnu en félagið er skráð á markað í Kaupmannahöfn.
Kjarninn 20. júlí 2019
Klikkið
Klikkið
Klikkið - Að vera aðstandandi veiks foreldris
Kjarninn 20. júlí 2019
Bjarni Már Magnússon
Þriðji orkupakkinn og sæstrengir
Kjarninn 20. júlí 2019
Tæplega 60 jarðir á Íslandi í eigu erlendra fjárfesta
Félagið Dylan Holding S.A. er sagt í eigu auðjöfursins Ratcliffe. Félagið er móðurfélag 20 annarra félaga sem skráð eru eigendur jarða á Íslandi.
Kjarninn 20. júlí 2019
Myndin er frá mótmælunum í Hong Kong í júní.
Evrópuþingið gagnrýnir aðstæður í Hong Kong
Bæði yfirvöld í Hong Kong og Beijing hafa gagnrýnt Evrópuþingið fyrir ályktunina og segja hana vera hræsni af hálfu þingsins.
Kjarninn 19. júlí 2019
Skora á Almenna innheimtu ehf. að hætta innheimtu á ólöglegum lánum
Fyrir liggur að vextir á smálánum eru margfalt hærri en heimilt er samkvæmt lögum, en þrátt fyrir það eru lántakendur enn krafðir um endurgreiðslu á ólöglegum vöxtum af innheimtufyrirtækinu Almenn innheimta ehf..
Kjarninn 19. júlí 2019
Birna Lárusdóttir
Viljum við fara aftur á byrjunarreit?
Kjarninn 19. júlí 2019
Meira úr sama flokkiInnlent