Í frumvarpi Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra um breytingu á lögum vegna afnáms á uppreist æru, og lagt var fram á Alþingi á dögunum, er ákvæði sem lítur að breytingu á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
Eins og greint var frá á vef Kjarnans þá hefur ákvæðið verið gagnrýnt í umsögun um frumvarpið, bæði af Alýðusambandi Íslands og Fjármálaeftirlitinu (FME), en breytingin gerir ráð fyrir því að fólk sem hefur hlotið refsidóm geti tekið sæti í stjórn FME tíu árum eftir að það hefur hlotið dóm.
Í umsögn FME segir meðal annars að þessi breyting geti falið í sér orðsporsáhættu fyrir eftirlitið. „Fjármálaeftirlitið vill því velta því upp hvort það gæti rýrt traust á slíkum ákvörðunum stjórnar ef þar sætu menn sem hafa hlotið refsidóm,“ segir í umsögninni.
Í tillögum frumvarpsins felst afnám kröfunnar um að stjórnarmenn í Fjármálaeftirlitinu hafi óflekkað mannorð.
Í umsögn Alþýðusambandsins segir að auk hennar sé „þeim sem gerst hafa sekir um um alvarleg brot á hegningarlögum, lögum á sviði fjármálamarkaðar eða félaga eða þolað íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir sem einstaklingar eða forsvarsmenn fyrirtækja, veitt sjálfkrafa hæfi að liðnum 10 árum eftir hafa verið dæmdir.“
Í svari dómsmálaráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans, kemur fram að þessi breyting er varðar fyrrnefnd ákvæði hafi komið frá fjármála- og efnahagsráðuneyti Bjarna Benediktssonar. „Áður en frumvarpið var sett inn á samráðsgátt Stjórnarráðsins leitaði dómsmálaráðuneytið til allra þeirra ráðuneyta sem höfðu forræði á löggjöf sem breyta þurfti vegna afnáms uppreistar æru úr íslenskri löggjöf. Ákvæðið sem þú vísar til í fyrirspurn þinn er 33. gr. frumvarpsins og lítur að breytingu á lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi nr. 87/1998 (til breytingar á 2. málsl. 3. mgr. 6. gr. laganna). Sú löggjöf er á forræði fjármálaráðuneytisins sem sendi inn tillögu að skilyrðum fyrir stjórnarsetu í Fjármálaeftirlitinu. Þau skilyrði byggja alfarið á tillögu starfshóps sem skilaði skýrslu þann 13. júní sl. um lagaumgjörð Fjármálaeftirlitsins,“ segir í svarinu.
Er þar vitnað til starfshóps sem í voru Eva H. Baldursdóttir, Haraldur Steinþórsson og Leifur Arnkell Skarphéðinsson, lögfræðingar í fjármála- og efnahagsráðuneyti, Tinna Finnbogadóttir, hagfræðingur í sama ráðuneyti, og Jóhannes Karl Sveinsson hrl., lögmaður, sem jafnframt var formaður starfshópsins.
Frumvarpið er nú til meðferðar hjá allsherjar- og menntamálanefnd sem mun vinna úr þeim umsögnum sem bárust og í kjölfarið tekur Alþingi málið til efnislegrar meðferðar. „Dómsmálaráðherra telur mikilvægt að löggjafinn komi sér saman um það hvernig haga skuli skilyrðum fyrir embættisveitingu eða starfsveitingum af ýmsum toga í kjölfar afnáms uppreistar æru að teknu tilliti til umsagna hagsmunaaðila og sérfæðinga. Þá ber einnig að líta til þess að í framtíðinni mun gefast tækifæri til að endurskoða slík skilyrði í hlutaðeigandi ráðuneytum ef menn telja þörf á því eftir að hafa fengið frekara ráðrúm til þess að skoða þessi mál í ljósi reynslunnar,“ segir í svari dómsmálaráðuneytisins.
Um þessar mundir er í gangi undirbúningur fyrir endurskoðun á lögum um FME og Seðlabanka Íslands, en eins og tilkynnt hefur verið um, þá er stefnt að sameiningu þessar stofnanna með það að markmiði að styrkja eftirlit með fjármálamarkaði á Íslandi.
Hluti af þeirri vinnu og þeim lögum, verður meðal annars að leggja línurnar um hæfisskilyrði þeirra sem stýra eftirlitinu, en Seðlabanki Íslands heyrir undir ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, og mun sameinuð stofnun gera það einnig.