Donald Trump Bandaríkjaforseti sendi frá sér yfirlýsingu í dag, þar sem hann sagðist treysta yfirvöldum í Sádí-Arabíu og að líklega myndi það aldrei skýrast til fulls hverjir hefðu staðið skipulagningu morðsins á Jamal Khashoggi, pistlahöfundi Washington Post, sem myrtur var í sendiráði Sádí-Arabíu í Istanbul, 3. október síðastliðinn.
Trump sagðist treysta krónprinsinum Mohammed bin Salman, en Washington Post greindi frá því fyrr í vikunni að bandaríska leyniþjónustan teldi Salman hafa staðið að baki morðinu á Khashoggi. Trump lét hafa eftir sér, að hann hafi ekki viljað hlusta á upptökur af því þegar Khashoggi var pyntaður og síðan myrtur af aftökusveit Sádí-Araba, en tyrknesk yfirvöld, sem eru nú að rannsaka málið sjálfstætt, fullyrða að krónprinsinn hafi fyrirskipað morðið.
Khashoggi hafði gagnrýnt krónprinsinn vegna stríðsins í Jemen, en óbreyttir borgarar hafa þar fallið í stríðsátökum sem Sádí-Arabía, með stuðningi Bandaríkjanna, hefur borið mesta ábyrgð á. Í pistli sem Khashoggi skrifaði á vef Washington Post í september þá sagði hann að krónprinsinn hefði þetta í hendi sér, sem hæstráðandi í Sádí-Arabíu, og gæti stöðvað stríðið og unnið að friðsamlegri lausn með Íran og Bandaríkjunum.
Eftir yfirlýsingu Trumps í dag hrundi olíuverð, og hefur lækkað um rúmlega sjö prósent þegar þetta er skrifað, en Trump hefur sjálfur talað fyrir því að olían eigi að lækka meira og hefur þrýst á Sádí-Arabíu um að auka framleiðslu til að þrýsta verðinu niður.
Hann hefur sagt að verðið eigi í reynd að vera lægra, og það muni að lokum draga úr verðbólguþrýstingi í Bandaríkjunum og vinna gegn frekari vaxtahækkunum Seðlabanka Bandaríkjanna.
Svo virðist sem markaðurinn meti það þannig, að stuðningsyfirlýsing Trumps leiði til þess að framleiðsla muni aukast og Bandaríkin þannig ná sínu fram.