Allir fimm nefndarmenn í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands, sem ákvarðar vexti, töldu rétt að hækka vextina, en þeir ræddu sína á milli hvort það ætti að hækka um 0,25 prósentur eða 0,5 prósentur.
Þetta kemur fram í fundargerð peningastefnunefndar frá því fyrr í mánuðinum, sem birt var í dag á vef Seðlabankans.
Vextir voru hækkaðir um 0,25 prósentur og eru meginvextir nú 4,5 prósent, en verðbólga mælist 2,8 prósent.
„Hækkun verðbólguvæntinga að undanförnu gæti einnig bent til þess að kjölfesta þeirra við markmið hefði veikst. Allir nefndarmenn voru því þeirrar skoðunar að nauðsynlegt væri að hækka vexti bankans nú og rætt var um hvort hækka ætti þá um 0,25 prósentur eða 0,5 prósentur,“ segir í fundargerðinni.
Fram kemur í fundargerðinni að Már Guðmundsson seðlabankastjóri hafi lagt til að vextir myndu hækka um 0,25 prósentur og studdu allir nefndarmenn það, nema einn sem vildi hækka um 0,5 prósentur.
„Helstu rökin fyrir því að hækka vexti um 0,25 prósentur voru þau að töluverð óvissa væri um
hversu hratt drægi úr hagvexti og hvernig gengi krónunnar myndi bregðast við hækkun vaxta
og lækkun hlutfalls sérstakrar bindiskyldu. Forsendur gætu verið til staðar fyrir heldur lægri
raunvöxtum en ella, eftir því hvernig þessir þættir ásamt öðrum myndu þróast, þótt það væri
ekki í þeim mæli sem hefði nú þegar raungerst. Því væri varlegra að taka minna skref nú.
Framhaldið myndi síðan ráðast af framvindunni. Helstu rökin fyrir því að hækka vexti um 0,5
prósentur voru hins vegar þau að verðbólguhorfur hefðu versnað töluvert og
verðbólguvæntingar hækkað það mikið að 0,25 prósentna hækkun vaxta dygði ekki til, enda
yrði taumhald peningastefnunnar áfram minna en það var á októberfundi nefndarinnar þrátt
fyrir þessa vaxtahækkun. Þá væru raunvextir bankans afar lágir þegar haft er í huga að spenna
er enn í þjóðarbúskapnum,“ segir í fundargerðinni.
Í peningastefnunefndinni sitja auk Más, sem er formaður, Gylfi Zoëga, Katrín Ólafsdóttir, Rannveig Sigurðardóttir og Þórarinn G. Pétursson.