Nefndarmenn í peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands voru sammála um það á fundi sínum, þegar ákveðið var að hækka vexti úr 4,25 prósent í 4,5 prósent, að ein ástæðan fyrir töluverðri veikingu krónunnar að undanförnu, væri óvissa um fjármögnun flugfélagsins WOW air.
Þetta kemur fram í fundargerð peningstefnunefndarinnar sem birt var í dag á vef Seðlabanka Íslands.
Allir fundarmenn voru sammála um hækki ætti vexti, en einn nefndarmaður vildi hækka vexti meira, um 0,5 prósentur.
„Nefndin tók einnig mið af því að gengi krónunnar hefði
lækkað frá því í ágúst. Nokkur umræða varð um helstu ástæður fyrir því og voru nefndarmenn
sammála um að upphaf þessarar lækkunarhrinu mætti að nokkru leyti rekja til tímabundinnar
óvissu um fjármögnun flugfélagsins Wow Air í byrjun september sl. Töldu þeir að það gæti hafa sett af stað ákveðið endurmat á stöðu og horfum enda virtust þeir þjóðhagslegu þættir sem
höfðu verið megindrifkraftar gengishækkunar krónunnar undanfarin misseri hafa gefið eftir.
Þar var helst nefnt að viðskiptakjör hefðu rýrnað, hægt hefði á útflutningsvexti og útlit væri
fyrir að hægt hefði á hagvexti á seinni hluta ársins. Á móti var bent á að lægra raungengi gæti
verið jákvætt fyrir rekstur fyrirtækja í ferðaþjónustu. Gengi krónunnar gæti einnig verið að
gefa eftir í kjölfar mikillar lækkunar raunvaxta að undanförnu. Gengissveiflur höfðu aukist
undanfarna mánuði og kom fram að það gæti tengst lausari kjölfestu
langtímaverðbólguvæntinga. Einnig var bent á að órói á fjármálamörkuðum hér á landi færi
saman við aukna óvissu á alþjóðlegum fjármálamörkuðum,“ segir í fundargerðinni.
Eins og fram hefur komið, þá hefur Icelandair keypt WOW air en fyrirvörum vegna kaupanna hefur þó ekki verið aflétt. Hluthafafundur þarf að samþykkja kaupin, en boðað hefur verið til hans 30. nóvember næstkomandi. Auk þess er Samkeppniseftirlitið með kaupin til athugunar.
Í peningastefnunefndinni sitja auk Más Guðmundssonar seðlabankastjóra, sem er formaður, Gylfi Zoëga, Katrín Ólafsdóttir, Rannveig Sigurðardóttir og Þórarinn G. Pétursson.
Bandaríkjadalur kostar nú 124 krónur og evran rúmlega 141 krónu, og hefur krónan veikst um rúmlega 10 prósent gagnvart þessum tveimur myntum á um tveimur mánuðum.