Heildarkostnaður rits um sögu flugvalla og flugleiðsögu á Íslandi eftir Arnþór Gunnarsson sagnfræðing sem Isavia gaf út á dögunum var 32 milljónir króna, þ.e. kostnaður við heimildaöflun, vinnslu texta, ljósmyndir, umbrot og prentun.
Þetta kemur fram í svari Isavia við fyrirspurn Kjarnans.
Samkvæmt svarinu tók fjögur ár að vinna verkið en það er 546 blaðsíður. Björn Óli Hauksson forstjóri Isavia færði Sigurði Inga Jóhannssyni samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra fyrsta eintak bókarinnar á dögunum.
Í frétt samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins kemur fram að árið 2016 hafi verið 70 ár liðin síðan Íslendingar fengu herflugvelli bandamanna í Reykjavík og Keflavík afhenta til eignar og hófu rekstur flugleiðsöguþjónustu á stórum hluta Norður-Atlantshafs. „Árið 2017 voru líka þrjátíu ár liðin frá opnun Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar sem olli straumhvörfum í farþegaflugi um Keflavíkurflugvöll. Flugsamgöngur og innviðir sem þeim tengjast eru undirstaða sívaxandi ferðaþjónustu sem orðin er einn mikilvægasti atvinnuvegur þjóðarinnar.“
Í fréttinni kemur jafnframt fram að það sé við hæfi þegar opinbert fyrirtæki lætur skrá svo merka sögu að tryggja að hún nái til sem flestra landsmanna. Bókin er því gefin út í rafbókarformi í opnum aðgangi á vef Landsbókasafnsins og Isavia.
Höfundur ritsins, Arnþór Gunnarsson, er sjálfstætt starfandi sagnfræðingur. Hann lauk BA prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 1990 og MS-prófi í ferðamálafræði frá sama skóla árið 2011. Eftir Arnþór liggur fjöldi greina um sagnfræðileg efni í tímaritum, þar á meðal í Sögu, tímariti Sögufélagsins.