Tillögur stjórnar Marels til hluthafafundarfundar voru samþykktar í gær, en ákveðið var að lækka hlutafé félagsins um 52,9 milljónir hluta, eða sem nemur um 7 prósentum af útgefnu hlutafé félagsins. Það er lækkun úr 735,5 milljónum hluta, í 682,6 milljónir hluta.
Þetta er gert til að bæta hag hluthafa félagsins fyrir fyrirhugaða tvíhliða skráningu félagsins, en eins og greint hefur verið frá þá er Marel nú að velja á milli kauphallanna í Kaupmannahöfn, Amsterdam og London, fyrir skráningu erlendis.
Félagið hefur verið að kaupa eigin hluti undanfarin misseri, og er lækkunin á hlutafénu eðlileg í því ljósi. Eyrir Invest er stærsti einstaki hluthafi félagsins með 25,9 prósent hlut.
Tvær tillögur voru á dagskrá fundarins, þ.e. fyrrnefnd tillaga um lækkun á eigin hlutum félagsins, og einnig tillaga um heimild til stjórnar félagsins til þess að setja upp formlega endurkaupaáætlun. Engin önnur mál voru borin upp á dagskrá fundarins.
Frá þessum áformum hafði þegar verið greint í tilkynningu frá félaginu til kauphallar, en nákvæmlega hversu mikil lækkunin á hlutafénu myndi verða, koma ekki fram fyrr en á hluthafafundinum.
Í fyrri tilkynningum frá félaginu kom fram, að samhliða áætlunum félagsins um tvíhliða skráningu, gerir stjórn félagsins ráð fyrir að óska eftir heimild hluthafa á aðalfundi félagsins árið 2019 til að hækka heildarhlutafé félagsins um allt að 15%, í þeim tilgangi að styðja við árangursríka skráningu á erlendum markaði, virka verðmyndun og seljanleika bréfanna.
Lækkunin verður framkvæmd með lækkun á eigin hlutum félagsins sem nema framangreindri fjárhæð, að uppfylltum skilyrðum laga um hlutafélög, segir í tilkynningu félagsins til kauphallar.
Hvað varðar síðari tillöguna, þá ákvað hluthafafundur að heimila stjórn að kaupa eigin hluti í félaginu með framkvæmd endurkaupaáætlunar, í skilningi laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. „Fjöldi hluta sem keyptur skal samkvæmt endurkaupaáætluninni verður að hámarki 34.129.296 hlutir, en það jafngildir 5% af útgefnu hlutafé félagsins,“ segir í tilkynningu frá félaginu.
Markaðsvirði Marel er nú um 280 milljarðar króna, en eins og greint var frá á vef Kjarnans á verðmetur greiningarfyrirtækið Stockviews í London Marel á umtalsvert meira, eða sem nemur um 433 milljörðum, sé horft til næstu tólf mánaða í rekstrinum. Félagið er langsamlega verðmætasta skráða félagið á Íslandi, og eru starfsmenn fyrirtækisins nú tæplega 6 þúsund á heimsvísu.