„Fullyrðingar um að vinnustaður okkar sé rotinn og að hér ríki þöggun eru rangar.“ Þetta er á meðal þess sem fram kemur í yfirlýsingu Starfsmannafélags Orkuveitu Reykjavíkur og trúnaðarmanna starfsmanna sem send var fjölmiðlum síðdegis í dag.
Tilefnið er sú umræða sem átt hefur sér stað um vinnustaðamenningu innan fyrirtækis, fjölmiðlaumfjöllun um hana og orð stjórnmálamanna um málið.
Í yfirlýsingunni segir að starfsfólk Orkuveitu Reykjavíkur hafi „fengið nóg af rangtúlkunum og ósanngirni sem stjórnmálamenn og fjölmiðlar setja á borð fyrir almenning. Það særir okkur hvernig stjórnmálamenn og fjölmiðlar tjá sig um vinnustaðinn sem þeir virðast ekki þekkja en leggja sig fram um að gera tortryggilegan, rangtúlka niðurstöður vinnustaðagreiningar og skýrslu Innri endurskoðunar með það að markmiði að því er virðist að grafa undan trausti gagnvart fyrirtækinu og þar með því fólki sem þar starfar. “
„Við óskum þess að þið séuð heil í því sem þið tjáið ykkur um og segið satt og rétt frá en dragið ekki upp myndir sem ekki eru til en við höfum á tilfinningunni að þið vilduð frekar mála. Nú er mál að linni.
Verið velkomin í heimsókn til okkar og kynna ykkur málin þá kannski rennur upp fyrir ykkur ljós að hérna vinnur venjulegt fólk, heiðarlegt fólk og að fyrirtækið er rekið af starfsfólki sem hér vinnur, ekki af stjórnmálamönnum.“
Stjórn Orkuveitunar óskaði eftir því við innri endurskoðun Reykjavíkurborgar í september að gerð yrði úttekt á vinnustaðarmenningu og tilteknum starfsmannamálum innan fyrirtækisins. Málið má rekja til þess að Áslaug Thelma Einarsdóttir, fyrrverandi forstöðumaður einstaklingsmarkaðar hjá Orku náttúrunnar, skrifaði færslu á Facebook þar sem hún sagðist hafa verið rekin fyrir að kvarta undan hegðun Bjarna Más Júlíiussonar, þáverandi framkvæmdastjór ON. Bjarni Már var rekinn vegna óviðeigandi framkomu en ástæða uppsagnarinnar voru tölvupóstar sem Bjarni sendi kvenkyns undirmönnum sínum.
Samkvæmt niðurstöðum úttektarinnar voru uppsagnir þeirra Áslaugar Thelmu Einarsdóttur og Bjarna Más taldar réttmætar.