Formenn Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Flokk fólksins hafa lagt fram tillögu um að veiðigjaldafrumvarpi ríkisstjórnarinnar verði vísað frá þingi og að á sama tíma verði gengið út frá því að gildandi lög verði framlengd og farið verði eftir ákvæðum þeirra til ársloka 2019. Þetta kemur fram í tilkynningu frá formönnum flokkana.
„Veiðigjaldafrumvarp ríkisstjórnarinnar er ógagnsætt og ber vott um hroðvirknisleg vinnubrögð. Því ber að vísa frá enda ótækt að veiðigjöld á útgerðina lækki um fjóra milljarða á sama tíma og gengið fellur og ekki er staðið við loforð til öryrkja, heilbrigðisstofnana og skóla.“ segir í tilkynningunni.
Segja ytri aðstæður hafa gjörbreyst
Samkvæmt tilkynningunni þykir formönnum stjórnarandstöðu flokkanna það sorglegt að ríkisstjórnin ætli að keyra frumvarpið í gegn í ósátt. Í tilkynningunni segir að ljóst sé að ytri aðstæður hafi gjörbreyst meðal annars vegna veikingu krónunnar og niðurskurði milli fjárlaga í velferðarmálum sem, samkvæmt formönnunum, gefur svigrúmið sem þarf til að vinna málið áfram. Formennirnir segja það mikilvægt að vandað verði til verka við gerð frumvarpsins og að nauðsynlegt sé að lágmarkssamstaða ríki um jafn mikilvægt mál og stjórn fiskveiða þjóðarinnar og gjöld sem greidd eru fyrir nýtingu auðlindarinnar. Gagnrýnt er í tilkynningunni að ekkert samráð hafi verið haft við undirbúning málsins, hvorki við þá sem starfa í greininni né við fulltrúa annarra þingflokka. Þá telja formennirnir það algert ógagnsæi ríkja um tölulegar forsendur tillögu meirihlutans og um afleiðingar breytinganna.
Í tilkynningunni kemur fram að forsvarsmenn flokkanna fjögurra harma að ríkisstjórnin vilji frekar stíga skref afturábak í flýti í stað þess að vinna að sameiginlegum lausnum, almenningi og sjávarútveginum til hagsbóta. „Þessi vinnubrögð þingsins eru ekki til þess fallinn að skapa réttlæti fyrir þjóðina eða stöðugleika fyrir greinina.“ segir jafnframt í tilkynningunni