Ólíklegt er að allir fyrirvarar sem settir voru í kaupsamning Icelandair Group á WOW air verði uppfylltir fyrir hluthafafund í félaginu næstkomandi föstudag. Á dagskrá fundarins er tillaga um að samþykkja kaupin. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Icelandair Group sendi Kauphöll rétt í þessu.
Þar segir enn fremur að áfram verði „unnið í málinu og viðræður standa yfir milli samningsaðila um framgang málsins.“
Fjármálaeftirlitið ákvað í morgun að stöðva tímabundið viðskipti með fjármálagerninga Icelandair Group sem teknir hafa verið til viðskipta á aðalmarkaði Nasdaq OMX Iceland hf. Í tilkynningu frá Fjármálaeftirlitinu kemur fram að ákvörðunin var tekin til að vernda jafnræði fjárfesta. Opnað var aftur fyrir viðskipti með bréfin klukkan 12:30 í dag.
Þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem viðskipti með bréf í Icelandair Group eru stöðvuð, en það gerðist einnig þegar félagið tilkynnti um kaup á WOW air fyrr í mánuðinum. Þá voru viðskiptin reyndar ekki stöðvuð strax og virði bréfa í félaginu hafði hækkað um tugi prósenta áður en stöðvunin var framkvæmd. Þannig var málum ekki háttað í morgun og lítil viðskipti höfðu átt sér stað með bréf í Icelandair Group það sem af er degi, eða fyrir 25 milljónir króna. Bréfin höfðu hækkað um 1,88 prósent það sem af er degi.