Fjölmiðlanefnd hefur lagt 750 þúsund króna stjórnvaldssekt á 365 miðla fyrir að brjóta gegn fjölmiðlalögum um miðlun viðskiptaboða fyrir áfengi yfir 2,25 prósent styrkleika í þáttaröðinni Ísskápastríðið, sem sýnd var á Stöð 2 í október, nóvember og desember 2017. Þetta kemur fram í ákvörðun nefndarinnar sem tekin var 21. nóvember og birt í dag.
Allir þættirnir nema einn voru sýndir á sjónvarpsstöðinni áður en að Sýn tók yfir rekstur hennar, en það gerðist í byrjun desember 2017.
Í niðurstöðu fjölmiðlanefndar segir að „líta megi á miðlun þáttaraðarinnar í heild sem eitt og sama brotið. Ljóst sé að 365 miðlar hafi framleitt alla þættina og sýnt þá flesta, að einum undanskildum. Líta megi til þess að einungis vika hafi liðið frá eigendaskiptum að Stöð 2, þann 1. desember 2017, þar til síðasti þátturinn í þáttaröðinni Ísskápastríð hafi verið sýndur á Stöð 2. Því verði ábyrgð vegna sýningar síðasta þáttarins í fyrrnefndri sjónvarpsþáttaröð ekki felld á Fjarskipti hf, heldur hafi miðlun annarrar þáttaraðar Ísskápastríðs, sem sýnd var á Stöð 2 árið 2017, verið á ábyrgð fjölmiðlaveitunnar 365 miðla.“
Að því vitu væri það niðurstaða nefndarinnar að „áberandi framsetning áfengra vörutegunda í annarri þáttaröð Ísskápastríðs, sem sýnd var á Stöð 2 í október, nóvember og desember 2017, teljist til vöruinnsetninga fyrir vörumerkin Stella Artois og Adobe, sem falli undir hugtakið viðskiptaboð í skilningi laga um fjölmiðla. Hafi 365 miðlar ekki getað sýnt fram á með trúverðugum hætti að þær vínflöskur sem sýnilegar voru í þáttaröðinni hafi einungis verið hluti af leikmynd og að 365 miðlar hafi greitt fyrir þær allar.“