„Hvar var FME þegar lífeyrissjóðirnir tóku sér áberandi stöðu með viðskiptablokk Bakkavararbræðra eða annara nafntogaðra útrásarvíkinga?“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, á Facebook síðu sinni.
Í færslunni beinir hann spjótunum að FME, en eins og greint var frá fyrr í dag þá sendi FME frá sér yfirlýsingu, þar sem áréttað er að ekki sé heimilt að nýta lífeyrissjóði með öðrum hætti en lögin um starfsemi þeirra segja til.
Er í yfirlýsingunni vísað til umfjöllunar fjölmiðla, en gera má ráð fyrir að þar sé meðal annars horft til umfjöllunar fréttaskýringarþáttarins Kveiks á RÚV, þar sem forsvarsmenn verkalýðshreyfingarinnar, Drífa Snædal, forseti ASÍ, Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR og Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, ræddu um stöðuna á vinnumarkaði.
Ragnar Þór sagði þar meðal annars: „Við erum líka aðilar að íslenska lífeyrissjóðakerfinu. Við erum að borga hátt í 20 milljarða á ári í umsýslukostnað inn í fjármálakerfið. Og af hverju getum við ekki sett fjármálakerfið okkar í verkfall? Af hverju getum við ekki beitt áhrifum okkar inni í lífeyrissjóðakerfinu – beinum þá tilmælum til okkar stjórnarmanna að skrúfa fyrir allar fjárfestingar á meðan óvissa eða samningar eru lausir?“
Í tilkynningu FME er það áréttað að ekki sé heimilt að nýta lífeyrissjóðina með öðrum hætti og lög segja til um, og að þau komi í veg fyrir að hægt að sé að nýta þá með öðrum hætti.
Ragnar spyr í Facebook færslu sinni, hvar FME hafi verið, þegar efnahagskerfið hrundi.
Orðrétt segir Ragnar: „Eru það hagsmunir sjóðfélaga að stjórnendur kerfisins sópi undir teppi eigin afglöpum í stað þess að skoða og rannsaka og verja raunverulega hagsmuni sjóðfélaga með gagnrýnni hugsun og raunverulegri skoðun?
Er virkilega ekki meiri metnaður í þessu kerfi en að sjóðfélagar lifi sem skulda og vinnuþrælar allt sitt líf til að fóðra óraunhæfa ávöxtunarkröfu og hugmyndafræði sem gengur ekki upp þegar á reynir? Hvar var FME þegar sjóðirnir brutu lög með gjaldmiðla braski sínu í aðdraganda hrunsins?
Hvar var FME þegar lífeyrissjóðirnir tóku sér áberandi stöðu með viðskiptablokk Bakkavararbræðra eða annara nafntogaðra útrásarvíkinga?
Hva var FME þegar sömu bræður tóku tug milljarða snúning á sjóðunum þegar þeir voru blekktir til að selja á undirverði? Hvar var FME þegar endurskoðendur kvittuðu uppá gjaldþrota bankakerfi, sem þeir vissu að væri gjaldþrota? Hvar voru hagsmunir sjóðfélaga og lög um lífeyrissjóði þá?
Hvar var FME þegar fjármálakerfið dældi út ólöglegum gengistryggðum lánum? Hvar var FME þegar banki notaði lífeyrissjóð í sinni umsjón til að fjárfesta í kísilverksmiðju? Hvar var FME þegar við raunverulega þurfti á þeim að halda til að verja hagsmuni almennings og sjóðfélaga lífeyrissjóðanna.
Viðbragðshraði FME er nokkuð áhugaverður þegar kemur að þeirri spurningu hvort lífeyrissjóðir eigi að skrúfa fyrir fjárfestingar í atvinnulífinu þegar vinnudeilur eru yfirvofandi eða átök.
Ekki heyrðist mikið í FME þegar sjóðirnir okkar voru notaðir sem opin veski útrásarinnar! Ekki verður nú sagt að ferilskrá FME sé sérlega glæsileg. Væri þá ekki ábyrg nálgun að fjárfesta ekki þegar óvissa er mikil? Það er ekkert sem bannar það! Ekkert!“