Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hefur birt stöðufærslu á Facebook-síðu sinni þar sem hann fjallar um fréttir sem unnar voru upp úr upptökum sem náðum af samtölum hans, annarra þingmanna úr Miðflokknum og tveggja þingmanna úr Fólki flokksins.
Á upptökunum tala þingmennirnir frjálslega og með niðrandi hætti um aðra þingmenn, um veitingu sendiherrastöðu auk þess sem þingmenn Miðflokksins reyna að sannfæra þingmenn Flokks fólksins sem eru viðstaddir að ganga til liðs við sig.
Þeir sem voru viðstaddir þegar upptakan var gerð, á hótelbar 20. nóvember síðastliðinn, voru Sigmundur Davíð, Gunnar Bragi Sveinsson, Bergþór Ólason og Anna Kolbrún Árnadóttir úr Miðflokki og Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason úr Flokk fólksins.
Alvarlegast finnst Sigmundi Davíð ef raunin sé sú að á Íslandi sé farið að stunda hleranir á einkasamtölum stjórnmálamanna. „Hafi verið gerð hljóðupptaka af fundi þeirra sex þingmanna sem þar eru nefndir hlýtur það að teljast alvarlegt mál. Hópurinn sem vísað er til sat einn úti í horni og því ekki um annað að ræða en að brotist hafi verið inn í síma einhvers þeirra sem þarna voru staddir eða beitt hlerunarbúnaði.
Ég man ekki eftir dæmi um slíkt í íslenskri stjórnmálasögu og aðeins einu dæmi frá Bretlandi. Það var þegar útsendarar blaðsins News of the World hleruðu símtöl stjórnmálamanna og annars þekkts fólks. Það athæfi var litið alvarlegum augum og gripið til aðgerða í samræmi við það. Ég vona að sú verði raunin á Íslandi líka. Annars eru Íslensk stjórnmál og íslenskt samfélag gjörbreytt.“
Í kvöld birtust ótrúlegar fréttir sem sagðar eru unnar upp úr leynilegri hljóðupptöku af samtölum þingmanna Miðflokksins...
Posted by Sigmundur Davíð Gunnlaugsson on Wednesday, November 28, 2018