Þingmenn Miðflokksins töluðu með niðrandi hætti um kvenkyns stjórnmálamenn í samtölum sín á milli sem náðust á upptöku, en Stundin og DV hafa í kvöld greint frá upptökunum og birt endursagnir úr þeim.
Í frétt Stundarinnar segir að upptaka hafi náðst af því þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, Gunnar Bragi Sveinsson, Bergþór Ólason og Anna Kolbrún Árnadóttir ræddu málin á Klaustri Bar hinn 20. nóvember, en þingmennirnir Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason voru einnig í hópnum.
Í samtölunum milli þeirra sögðu þeir meðal annars að stjórnmálakona hlyti að „hrynja niður“ á prófkjörslista ef hún væri ekki jafn „hot“ og áður.
Í umfjöllun Stundarinnar segir meðal annars orðrétt:
„Á einum tímapunkti töluðu þingmennirnir um hvernig næsta prófkjör hjá Sjálfstæðisflokknum í tilteknu kjördæmi geti farið.
Gunnar Bragi: „Ég held reyndar að [...] geti verið helvíti öflug. Hún er helvíti sæt stelpa.“
Sigmunur Davíð: „Þetta er svona móment, ung kona, ungt fólk í Sjálfstæðisflokknum, lyftum henni.“
Bergþór: „Nú ætla ég að segja eitt sem er náttúrulega mjög dónalegt, en það fellur hratt á hana. Hún er miklu minna hot í ár en hún var bara fyrir tveimur árum síðan. Það er ótrúlegur munur.“
Sigmundur Davíð: „Og á þeim forsendum segi ég að hún hrynji niður listann.“
Bergþór: „Eðlilega.“
Á þessu augnabliki skaut Anna Kolbrún inn: „Viljiði velta fyrir ykkur, ef þetta væri karl?“ og við tóku háreysti og hlátrasköll karlanna.“
Stundin segir enn fremur frá því að Bergþór Ólason hafi kallað Ingu Sæland, formann og stofnanda Flokks fólksins, „húrrandi klikkaða kuntu“.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefur tjáð sig um fréttirnar á Facebook síðu sinni, og segir það alvarlegt mál ef samtöl þingmanna eru hleruð. Í færslunni segir Sigmundur Davíð:
„Í kvöld birtust ótrúlegar fréttir sem sagðar eru unnar upp úr leynilegri hljóðupptöku af samtölum þingmanna Miðflokksins og Flokks fólksins. Þær ægir öllu saman. Í sumu af því sem hefur birst er viljandi eða óviljandi ranghermt um hvað er verið að ræða og hver segir hvað. Samtöl þingmanna sem sitja saman á góðri stund og grínast hver við annan eru auk þess látin hljóma eins og pólitískt plott. Samtal sem ég var sagður hafa átt við Ólaf Ísleifsson um að hann yrði þingflokksformaður Miðflokksins var unnið upp úr samræðum milli annarra manna um aðra hluti í léttum dúr og fór fram eftir að Ólafur var farinn.
Alvarlegast er þó ef raunin er sú að á Íslandi sé farið að stunda hleranir á einkasamtölum stjórnmálamanna. Hafi verið gerð hljóðupptaka af fundi þeirra sex þingmanna sem þar eru nefndir hlýtur það að teljast alvarlegt mál. Hópurinn sem vísað er til sat einn úti í horni og því ekki um annað að ræða en að brotist hafi verið inn í síma einhvers þeirra sem þarna voru staddir eða beitt hlerunarbúnaði. Ég man ekki eftir dæmi um slíkt í íslenskri stjórnmálasögu og aðeins einu dæmi frá Bretlandi. Það var þegar útsendarar blaðsins News of the World hleruðu símtöl stjórnmálamanna og annars þekkts fólks. Það athæfi var litið alvarlegum augum og gripið til aðgerða í samræmi við það. Ég vona að sú verði raunin á Íslandi líka. Annars eru Íslensk stjórnmál og íslenskt samfélag gjörbreytt.“