Gunnar Bragi Sveinsson, þingflokksformaður Miðflokksins, segist hafa verið „mjög ölvaður“ á hittingi við aðra þingmenn sem tekin voru upp og birt á fjölmiðlum í gær. Listinn yfir það fólk sem hann þurfi að birta afsökunar sé mjög langur. „Maður á ekki að tala svona. Það er sorglegt í rauninni.“ Hann er ekki sammála því að þingmenn í öðrum löndum sem hefðu verið uppvísir að tali eins og því sem heyrist á upptökunni myndu endilega segja af sér. „Auðvitað segjum við af okkur ef við brjótum af okkur, gegn þjóðarhag eða eitthvað slíkt.“ Gunnar Bragi segir þetta ekki hafa verið neitt slíkt. Afleiðingarnar fyrir þingmenn muni koma fram í kosningum.
Þetta kom fram í viðtali við Gunnar Braga í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun.
Ummæli af upptökunni voru birt á vefum Stundarinnar og DV í gærkvöldi. Gunnar Bragi segir þar að honum hafi dauðbrugðið þegar hann las eigin ummæli. Á upptökunni heyrist hann tala með mjög niðrandi hætti um t.d. Oddnýju Harðardóttur og Loga Einarsson, þingmenn Samfylkingarinnar, Unni Brá Konráðsdóttur, söngvarann Friðrik Ómar Hjörleifsson. Gunnar Bragi sagðist hafa náð á Loga og beðið hann afsökunar, hann muni reyna að ná á Oddnýju sem fyrst og sé búinn að senda skilaboð til Friðriks Ómars.
Um Friðrik Ómar sagði hann: „VG hefðu getað orðið brjálaðir en Katrín sagði ekki orð. Ég átti fund með henni. Geir slapp í gegnum þetta eins og smjör á smokknum hjá honum þarna Friðriki Ómari.“
Gunnar Bragi segist ekkert vita hvað honum gekk til með þeim ummælum sem hann lét falla. „Þetta er bara galið að segja svona hluti[...]Það er eitthvað í kollinum á manni sem maður þarf að skoða.“
Hann segir málið þó tvíþætt, annars vegar það sem þingmennirnir segja, og hins vegar sé líka alvarlegt að samtöl fólks séu tekin upp. Það sé ótrúlegt að hópur fólks geti ekki sest niður og rætt hluti án þess að eiga á hættu á slíku, að mati Gunnars Braga.
Gunnar Bragi myndi skoða boð um sendiherrastöðu
Gunnar Bragi var utanríkisráðherra um nokkurra ára skeið. Þar barðist hann opinberlega mjög fyrir bættri stöðu kvenna, kom fram á alþjóðavettvangi sem slíkur talsmaður og skrifaði greinar. Hann segist skilja gagnrýni á það í dag, í ljósi þeirra ummæla sem hann lét falla, en segist ekki gera greinarmun á körlum og konum.
Á meðal þess sem hann segir er: „„Þegar ég ákvað það að skipa Geir H. Haarde sendiherra í Washington […] þá ræddi ég við Sigurð Inga. Honum var ekki skemmt enda hafði hann ákært Geir. Ég ræddi þetta auðvitað við alla flokka. Ég sá það að ég gæti ekki skipað Geir einn. Það yrði of þungur biti fyrir þingið og alla. Það sem ég gerði var að skipa Árna Þór (Sigurðsson) sem sendiherra. Hann er náttúrulega bara […], þó hann sé frændi minn. VG hefðu getað orðið brjálaðir en Katrín sagði ekki orð. Ég átti fund með henni. Geir slapp í gegnum þetta eins og smjör á smokknum hjá honum þarna Friðriki Ómari.“
Síðar bætti Gunnar Bragi við: „Athyglin fór öll á Árna Þór. Annars hefði Vinstri Græna liðið orðið brjálað[...]Árni var náttúrulega ekkert annað en senditík Steingríms. Plottið mitt var að Geir yrði í skjólinu hjá Árna og það virkaði ekki bara 100 prósent heldur 170 prósent því að Árni fékk allan skítinn. Svo sagði Geir við mig löngu seinna: „Þakka þér fyrir. Það var enginn sem gagnrýndi mig.“ Ég lét Árna taka allan slaginn.[...]Ég átti fund með Bjarna í fjármálaráðuneytinu. Ég sagði við Bjarna: „Það er algjörlega sjálfsagt. Auðvitað geri ég Geir að sendiherra.“ Og ég sagði við hann: „Og mér finnst sanngjarnt að þið horfið til svipaðra hluta þegar ég þarf á því að halda.“ Það var ekki vegna þess að ég hafi verið að hugsa um að skipta um flokk. Ég var ekki kominn út þegar Þórólfur (Gíslason) hringir og spyr: „Ætlar þú að verða sendiherra?“ Ég var ekki kominn út úr ráðuneytinu.“
Það sé þó rétt að Gunnar Bragi hafi talið það hafa verið klókt að skipa þá Árna og Geir á sama tíma í sendiherrastöður vegna þess að skipan Árna myndi draga úr neikvæðri umfjöllun um skipun Geirs.
Aðspurður um hvort að Gunnar Bragi sé á höttunum eftir að vera skipaður sendiherra, sem var gefið sterklega í skyn á upptökunni, þá segist hann myndi skoða það ef slíkt kæmi upp.